Flestir mæta á Meistaravelli

KR-ingar fagna marki á Meistaravöllum.
KR-ingar fagna marki á Meistaravöllum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar þremur umferðum er ólokið í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu hafa 120.242 áhorfendur mætt á leikina 114 sem hafa verið spilaðir á mótinu.

Að meðaltali hafa því 1.055 mætt á hvern leik fyrir sig. KR-ingar eru með bestu aðsóknina í sumar en að meðaltali hafa 1.623 áhorfendur mætt á leiki toppliðsins á Meistaravöllum. Sjö af liðunum tólf í deildinni eru með yfir eitt þúsund áhorfendur að meðaltali á heimaleiki sína.

Ef þetta helst til loka tímabilsins verður aðsóknin sú besta í fjögur ár, eða frá 2015 þegar 1.107 manns komu á hvern leik að meðaltali. Þrjú undanfarin ár hefur aðsókn verið undir þúsundinu að meðaltali.

Meðalaðsókn hjá hverju liði fyrir sig er sem hér segir:

1.623 KR
1.394 Breiðablik
1.368 FH
1.232 Fylkir
1.161 ÍA
1.062 Stjarnan
1.048 Valur
   999 Víkingur
   886 HK
   833 KA
   615 Grindavík
   507 ÍBV

mbl.is