Ég átta mig ekki alveg á þessu

Óttar Magnús Karlsson fagnar sigurmarki sínu fyrir Víkinga á Laugardalsvellinum …
Óttar Magnús Karlsson fagnar sigurmarki sínu fyrir Víkinga á Laugardalsvellinum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er æðisleg tilfinning,“ sagði Óttar Magnús Karlsson í samtali við mbl.is eftir að hann tryggði Víkingi fyrsta bikartitil félagsins í 48 ár. Hann skoraði sigurmarkið gegn FH í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í fótbolta. 

„Ég átta mig ekki alveg á þessu en þetta er að renna upp fyrir mér núna og þetta er mjög ljúft,“ sagði Óttar kátur. Hann skoraði sigurmarkið á vítapunktinum, en Daði Freyr Arnarsson, markmaður FH, var í boltanum og varði hann inn. 

„Þetta var kannski ekki öruggasta vítið. Taugarnar voru aðeins að segja til sín þegar ég stillti boltanum upp og hljóp að honum en sem betur fer fór þetta inn, það var það eina sem skiptir máli. Það var óþægilegur mótvindur sem gerði þetta enn erfiðara.“

Óttar segir sigurinn verðskuldaðan og hrósaði hann hugarfari leikmanna liðsins. 

„Við gerðum þetta sem ein heild. Í viðtölunum fyrir leik og það sem við sögðum hver við annan sýndi hvað er mikill meðbyr í þessu. Það var liðsheild í dag sem skóp þetta. Við vorum búnir að ákveða að hlaupa yfir þá og berjast. Það var allt mjög jákvætt fyrir þennan leik hjá okkur og ekkert stress, bara tilhlökkun.“

Pétur Viðarsson, leikmaður FH, fékk beint rautt spjald fyrir að traðka á bringunni á Guðmundi Andra Tryggvasyni eftir klukkutíma leik. Óttar segir Pétur ekki geta kvartað yfir þeim dómi. 

„Alls ekki. Eins og ég sá þetta þá steig hann beint á bringuna á honum og það er ekkert hægt að gera í því,“ sagði Óttar Magnús. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert