Fyrsti bikartitill Víkinga í 48 ár

Víkingur er bikarmeistari karla í fótbolta í annað skipti og í fyrsta skipti síðan 1971 eftir 1:0-sigur á FH í sextugasta bikarúrslitaleik KSÍ á Laugardalsvelli í kvöld. 

Víkingur var betri aðilinn í fyrri hálfleik og fékk liðið tvö úrvalsfæri til að skora fyrsta markið. Sölvi Geir Ottesen fékk frían skalla á markteig eftir hornspyrnu Loga Tómassonar á tíundu mínútu og Guðmundur Andri Tryggvason slapp einn í gegn á 29. mínútu. Í bæði skiptin varði Daði Freyr Arnarsson mjög vel í marki FH. 

FH átti aðeins eitt skot allan hálfleikinn en Þórður Ingason varði auðveldlega frá Cédric D'Ulivo sem náði ekki góðu skoti úr teignum skömmu fyrir leikhlé. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Víkingur var áfram sterkari framan af í seinni hálfleik og fyrsta markið kom loksins á 58. mínútu. Þórður Þorsteinn Þórðarson fékk þá boltann ótrúlega klaufalega í höndina innan teigs og Pétur Guðmundsson dæmdi víti. Óttar Magnússon Karlsson fór á punktinn og skoraði.  

Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Pétur Viðarsson beint rautt spjald fyrir að traðka á bringunni á Guðmundi Andra Tryggvasyni og spiluðu FH-ingar því manni færri síðasta hálftímann. 

FH pressaði nokkuð stíft það sem eftir lifði leiks, þrátt fyrir að vera manni færri, en Víkingar vörðust vel og þurfti Þórður Ingason í markinu ekki oft að taka á honum stóra sínum. Það voru því Víkingar úr Fossvogi sem fögnuðu í leikslok. 

Víkingur R. 1:0 FH opna loka
90. mín. Guðmann Þórisson (FH) á skalla sem er varinn Laust og boltinn beint í fangið á Þórði sem grípur auðveldlega.
mbl.is