Líður eins og mig sé að dreyma

Halldór Smári Sigurðsson varð bikarmeistari með uppeldisfélaginu í kvöld.
Halldór Smári Sigurðsson varð bikarmeistari með uppeldisfélaginu í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég get eiginlega ekki lýst þessu. Mér líður eins og mig sé að dreyma,“ sagði kampakátur Halldór Smári Sigurðsson í samtali við mbl.is í kvöld eftir að Víkingur tryggði sér bikarmeistaratitilinn í fótbolta á Laugardalsvelli. 

Halldór Smári hefur alla tíð leikið með Víkingi og hefur hann gengið í gegnum súrt og sætt. Hann hefur spilað yfir 200 leiki fyrir félagið og þar af 79 í 1. deildinni. Það hefur því ekki alltaf verið raunhæft að vinna titil. 

„Ég ætla ekki að neita því að það hefur farið í gegnum hausinn á mér að ég myndi kannski ekki vinna neitt með Víkingi, en svo er heldur betur ekki. Ég gæti ekki verið sáttari með að vinna bikarinn með þessu félagi.“

Hvað hef ég unnið? Ég hef unnið Bose-mótið í nóvember og það er allt og sumt,“ sagði Halldór léttur þegar hann var spurður hvort þetta væri ekki örugglega hápunkturinn á ferlinum með Víkingum.

Hann segir sigurinn í kvöld verðskuldaðan og man hann varla eftir færi sem FH fékk. 

„Mér fannst við vera með yfirhöndina allan tímann. Mér fannst þeir ekki eiga möguleika og ég man ekki eftir færi hjá þeim. Við áttum þetta svo skilið. Þetta er áframhald á góðri samvinnu hjá mér og Sölva og svo var allt liðið að berjast og Arnar lagði þetta frábærlega upp.“

Pétur Viðarsson fékk beint rautt spjald fyrir að traðka á bringunni á Guðmundi Andra Tryggvasyni. 

„Nú sá ég ekki rauða spjaldið en ég sá að Guðmundur Andri var blóðugur í kjaftinum og virðist hafa fengið þungt högg. Óviljandi eða ekki, þá traðkaði hann á honum og það er eins og það er.“ Hvernig ætlar Halldór að fagna? 

„Áfengi núna helst, svo skoðum við stöðuna,“ sagði Halldór Smári brosandi í sigurvímu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert