Dómarinn hefði ekki tekið stóra ákvörðun

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. Ljósmynd/Þórir

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, sagðist ekki hafa búist við því að dómari leiksins í toppslag Breiðabliks og Vals í Pepsi Max-deild kvenna í kvöld myndi taka stórar ákvarðanir eftir að hafa verið í sviðsljósinu sem fjórði dómari í bikarúrslitaleik karla í gær. 

„Mér fannst við eiga að fá víti í fyrri hálfleik og nokkrir hafa sagt við mig eftir leikinn að þetta hafi átt að vera víti. Ég bjóst ekki við því að Ívar Orri (Kristjánsson dómari leiksins) myndi taka erfiðar ákvarðanir í kvöld eftir að hafa verið tekinn af lífi í fjölmiðlum fyrir að gefa rautt spjald í gær. Hann var undir þannig pressu að hann hefur ekki viljað taka stóra ákvörðun í dag. Ef ég væri tekinn af lífi í fjölmiðlum þá myndi það hafa áhrif á mig sem leikmann inni á vellinum og ég efast ekki um að þetta hafi áhrif á dómara. Ég er ekki að saka Ívar um að hafa verið hliðhollur öðru liðinu í kvöld. Hann var bara settur í þá stöðu að vera fjórði dómari í bikarúrslitum í gær og dómari í kvöld. Hann gaf rautt spjald í gær. Þegar þú ert tekinn og hakkaður gersamlega í spað af öllum sem komu að þeim leik þá líður þér væntanlega ekki vel og efast um eigið ágæti,“ sagði Þorsteinn við fjölmiðlamenn að leiknum loknum í Kópavogi. 

Þorsteinn sagði Breiðablik hafa spilað betur en Valur í kvöld en benti á að úrslitin réðust af því hvernig lið nýta marktækifærin. 

„Ég er auðvitað grautfúll yfir úrslitunum. Við vorum mun betri í leiknum en fótbolti snýst um að skora mörk og við áttum í basli með það. Á heildina litið vorum við betri úti á vellinum og líklegri til að vinna þennan leik. Það er bara spurt að því hverjir skora mörkin,“ sagði Þorsteinn ennfremur. 

mbl.is