„Hátt í sex mínútur komnar fram yfir“

Eiður Benedikt Eiríksson aðstoðarþjálfari og Pétur Pétursson.
Eiður Benedikt Eiríksson aðstoðarþjálfari og Pétur Pétursson. Ljósmynd/Þórir

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, sagði liðlega sex mínútur hafa verið liðnar af uppbótartíma þegar Breiðablik jafnaði gegn Val 1:1 í næstsíðustu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. 

„Það voru hátt í sex mínútur komnar fram yfir,“ sagði Pétur sem var með skeiðklukku um hálsinn að hætti sundþjálfara. „Dómararnir dæma þetta og svona er þetta stundum. Það var ekki þægilegt að fá á sig þetta mark þegar við vorum svo nálægt titlinum. En það er ein umferð eftir og við getum tryggt okkur titilinn um næstu helgi.“

Með sigri hefði Valur orðið meistari en jafnteflið heldur Val tveimur stigum fyrir ofan Breiðablik. „Já þá lá fyrir að jafntefli væru góð úrslit fyrir okkur en við töluðum svo sem ekkert um það fyrir leikinn. Það hefði verið betra að vinna þetta. Mér fannst frammistaða liðsins fín og í vörninni var frammistaðan fín. Ég held nú að vindurinn hafi haft töluverð áhrif á leikinn og þá sérstaklega í fyrri hálfleik.“

Valur tekur á móti Keflavík á Hlíðarenda í lokaumferðinni. „Við erum að fara að spila á móti Keflavík sem er fallin en það er hörkulið líka. Það er erfitt að vinna þær en við förum í alla leiki til að vinna,“ sagði Pétur Pétursson á Kópavogsvellinum í kvöld.  

mbl.is