ÍBV heldur sætinu - Keflavík fellur

Harður slagur í viðureign Fylkis og ÍBV.
Harður slagur í viðureign Fylkis og ÍBV. mbl.is/Arnþór Birkisson

ÍBV vann öruggan 2:0 sigur á Fylki í 17. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Mörkin komu með stuttu millibili undir lok fyrri hálfleiks.

Mikið rok var í Vestmannaeyjum og fengu flaggstangir vallarins að finna fyrir því, sem og grindverk í kringum völlinn. Niðri á grasinu sjálfu var vindurinn ekki mikill og því dagskipun beggja þjálfara að spila knettinum meðfram grasinu.

Eyjakonur virtust leggja upp með það að fá hornspyrnur þar sem liðið var komið með sex slíkar þegar korter var liðið, ÍBV sótti látlaust allan fyrri hálfleikinn og átti liðið ótal skot á markið og rétt framhjá því.

Þórdís Elva Ágústsdóttir, leikmaður Fylkis, gerði sig seka um slæm mistök á 36. mínútu þegar hún negldi Ingibjörgu Lúcíu Ragnarsdóttur niður. Þórdísi fannst vera brotið á sér rétt áður en hún tók reiði sína út á Ingibjörgu sem lá kylliflöt þegar dómari leiksins lyfti rauða spjaldinu. Þórdís brotnaði strax niður og hefur séð virkilega eftir þessu.

Leikmenn ÍBV nýttu sér meðbyrinn, bæði vindinn og það að vera orðnar fleiri inni á vellinum, með því að skora tvö mörk áður en flautað var til hálfleiks. Brenna Lovera skoraði eftir hornspyrnu á 38. mínútu með skoti sem Brigita Morkute átti ekki möguleika á að verja. Brigita spilaði í fjarveru Cecilíu Ránar Rúnarsdóttur sem tók út leikbann.

Rétt undir lok fyrri hálfleiks skoraði Sigríður Lára Garðarsdóttir með föstum skalla eftir hornspyrnu Júlíönu Sveinsdóttur og kom ÍBV því tveimur mörkum yfir. Þar var ljóst að róðurinn yrði erfiður fyrir gestina í síðari hálfleik, þrátt fyrir að hafa vindinn í bakið.

Til marks um það hve mikill vindurinn var kom ein hættulegasta tilraun Fylkis úr útsparki Brigitu sem Guðný Geirsdóttir varði í marki ÍBV. Fylkiskonur reyndu allt hvað þær gátu til þess að minnka muninn en allt kom fyrir ekki og tap því niðurstaðan.

Þó nokkur spjöld litu dagsins ljós en auk rauða spjaldsins fóru fimm gul spjöld á loft. Marija Radojicic og Kyra Taylor fengu spjöld í liði gestanna. Þær Sigríður Lára Garðarsdóttir, Caroline van Slambrouck og Júlíana Sveinsdóttir fengu allar gult spjald í liði ÍBV.

ÍBV er nú með 18 stig í 8. sæti deildarinnar og hafa bjargað sér frá falli, þar sem Keflavík er enn fimm stigum á eftir. Fylkiskonur eru með 22 stig í 5. sæti deildarinnar og geta vel við unað, flott tímabil hjá þeim.

ÍBV 2:0 Fylkir opna loka
90. mín. Brenna Lovera (ÍBV) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert