Selfoss tryggði þriðja sætið

KR og Selfoss léku til úrslita í bikarkeppninni í síðasta …
KR og Selfoss léku til úrslita í bikarkeppninni í síðasta mánuði og þar hafði Selfoss betur. mbl.is/Árni Sæberg

Selfoss gulltryggði þriðja sætið í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta með 2:0-sigri á KR á útivelli í næstsíðustu umferðinni í dag. Selfoss er með 31 stig eftir 17 leiki. KR er enn í sjötta sæti með með 19 stig. 

Selfoss var miklu betri í fyrri hálfleik og var með verðskuldaða 2:0-forystu í hálfleik. Allison Murphy skoraði bæði mörk Selfoss, hennar fyrstu mörk í efstu deild. 

Hún slapp í gegn á 20. mínútu eftir flotta sendingu Hólmfríðar Magnúsdóttur og lagði boltann örugglega framhjá Ingibjörgu Valgeirsdóttur í marki KR. Aðeins sex mínútum síðar kláraði sú bandaríska virkilega vel utan teigs í bláhornið. 

KR skapaði sér fín færi í seinni hálfleik og þá sérstaklega Guðmunda Brynja Óladóttir, en henni tókst illa að hitta á markið. Hálftíma fyrir leikslok slapp hún ein í gegn en setti boltann fast í hliðarnetið. 

Það reyndist besta færi KR í seinni hálfleik og Selfoss gat fagnað þremur stigum, en Selfoss hafði einnig betur er liðin mættust í bikarúrslitum fyrr í sumar. 

KR 0:2 Selfoss opna loka
90. mín. Leik lokið Selfoss fagnar þremur stigum og gulltryggir sér þriðja sæti deildarinnar í leiðinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert