Lýkur titilbaráttunni og fallbaráttunni í dag og kvöld?

Breiðablik og Valur mætast í uppgjöri toppliðanna í kvöld.
Breiðablik og Valur mætast í uppgjöri toppliðanna í kvöld. mbl.is/Hari

Úrslit gætu ráðist endanlega í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í dag og kvöld þegar næstsíðasta umferðin verður leikin.

Valur getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn, beri liðið sigurorð af Breiðabliki í uppgjöri tveggja efstu liðanna á Kópavogsvelli. Valur er með 46 stig gegn 44 stigum Blikanna. Þá yrði Valur kominn með aðra hönd á bikarinn með jafntefli en Hlíðarendaliðið á heimaleik við Keflavík í lokaumferðinni á meðan Blikar heimsækja Fylki.

Keflavík getur fallið úr deildinni í dag en liðið fær fallna HK/Víkings í heimsókn kl. 14 í dag. ÍBV er með 15 stig og Keflavík 10 en annaðhvort liðið fellur með HK/Víkingi sem er með 7 stig á botninum.

Keflavík þarf að vinna sinn leik og treysta á að ÍBV vinni ekki Fylki á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum til að vera enn á lífi fyrir lokaumferðina. Ef Eyjakonur vinna sinn leik eru Keflvíkingar fallnir, sama hvernig þeirra leikur fer.

Leikir dagsins:

14.00 KR - Selfoss
14.00 ÍBV - Fylkir
14.00 Keflavík - HK/Víkingur
14.45 Þór/KA - Stjarnan
19.15 Breiðablik - Valur

Allir leikirnir verða í beinum textalýsingum hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert