Tíu HK-ingar skoruðu með síðustu snertingunni

HK-ingurinn Leifur Andri Leifsson sækir að Ásgeiri Sigurgeirssyni úr KA …
HK-ingurinn Leifur Andri Leifsson sækir að Ásgeiri Sigurgeirssyni úr KA í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og HK áttust við í miklum hasarleik á Akureyri í dag. Leikurinn var í 20. umferð Pepsi Max-deildar karla í fótbolta og var liðunum afar mikilvægur. Bæði lið áttu enn á hættu að falla úr deildinni en áttu jafnframt möguleika á að klifra alla leið upp í þriðja sætið með sigri í lokaleikjunum sínum.

KA var með pálmann í höndunum þar til í blálokin. Staðan var 1:0 og HK-ingar manni færri. HK fékk hornspyrnu á lokasekúndunum og úr henni skoraði Emil Atlason með nánast síðustu snertingu leiksins, kastaði sér fram og skallaði í netið af markteig. Leikurinn fór því 1:1 og HK tók því 5. sætið sem KA var búið að tylla sér í.

HK er með 26 stig en KA er í tíunda sætinu, stigi neðar með 25 stig. Á milli eru Valur, Víkingur, ÍA og Fylkir, öll með 25 stig, en eiga öll eftir að spila í umferðinni.

KA byrjaði leikinn af miklum krafti og eftir sjö mínútur var komið mark. Ásgeir Sigurgeirsson sendi boltann í mark eftir barning í teig HK-inga þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson skallaði boltann fyrir fætur hans. Var Ásgeir að skora fyrsta mark sitt í sumar. KA fékk nokkur færi eftir þetta en bæði Hrannar Björn Steingrímsson og Almarr Ormarsson klúðruðu gullnum færum.

HK kom svo sífellt betur inn í leikinn og síðasta kortérið í fyrri hálfleik lágu þeir vel á varnarmúr KA. Nokkur hálffæri komu á þessum kafla en aldrei fór boltinn í netið. KA leiddi því 1:0 í hálfleik.

Seinni hálfleikinn hófu gestirnir eins og þeir enduðu þann fyrri en lítið kom út úr skemmtilegum sóknarleik þeirra. KA fór svo að bíta frá sér og um miðjan seinni hálfleikinn fór Björn Berg Bryde af velli með rautt spjald. KA hefði hæglega getað bætt við marki en HK átti lokasóknirnar og úr þeirri síðustu kom jöfnunarmarkið frá Emil Atlasyni.

KA 1:1 HK opna loka
90. mín. Emil Atlason (HK) skorar +6 1:1. Ja hérna. HK skorar úr síðustu snertingu leiksins. Emil Atlason með skalla af markteignum eftir hornspyrnu frá vinstri. KA-menn ganga niðurbrotnir af velli.
mbl.is