Aldrei að fara að gerast hjá okkur

Pálmi Rafn Pálmason í hörðum slag gegn Fylki í sumar.
Pálmi Rafn Pálmason í hörðum slag gegn Fylki í sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég er í sæluvímu. Þetta er geðveikt og ég á ekki til orð. Loksins!“ sagði Pálmi Rafn Pálmason eftir að hann tryggði KR Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta í kvöld. Pálmi skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri á Val sem tryggði titilinn, þrátt fyrir að tvær umferðir séu eftir. 

„Við vorum með þennan leik meira og minna allan tímann og spiluðum vel. Við ætluðum að klára þetta hérna, það kom aldrei neitt annað til greina og við gerðum það helvíti vel.“

KR er búið að vera með fínt forskot stóran hluta móts, en einn sigur í fjórum leikjum í ágúst, gaf liðunum fyrir neðan smá von. Pálmi hafði þó engar áhyggjur.  

„Þessi hópur er búinn að vera rólegur og samstilltur allt tímabilið. Við vorum aldrei stressaðir og þessi umræða um að þetta væri að leysast upp í einhverja spennu í lokin var skemmtileg, en það var aldrei að fara að gerast hjá okkur. 

mbl.is