Besta tilfinning í heimi

KR-ingar fagna vel og innilega í leikslok.
KR-ingar fagna vel og innilega í leikslok. mbl.is/Hari

„Ég er eiginlega orðlaus. Ég er enn að meðtaka þetta allt. Þetta er eitthvað sem við höfum stefnt að frá því í fyrra þegar Rúnar kom fyrst inn í klúbbinn,“ sagði kampakátur Kristinn Jónsson í samtali við mbl.is eftir að KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í fótbolta með 1:0-sigri á Val á útivelli. 

„Skari sagði þetta ágætlega; ef það er einhver völlur sem við viljum vinna á, er það hér á Hlíðarenda og taka titilinn bókstaflega fá Íslandsmeisturum síðustu ára,“ sagði Kristinn um tilfinninguna um að vinna titilinn á heimavelli erkifjendanna. 

Pálmi Rafn Pálmason skoraði sigurmarkið strax á fjórðu mínútu og voru Valsmenn ekki líklegir til að jafna eftir það. „Valur skapaði sér varla færi, fyrir utan skalla sem Beitir varði í lok leiks. Við fengum fullt af svæði og tækifærum til að bæta við og það var óheppni að klára ekki leikinn fyrr.“

Kristinn varð Íslandsmeistari með Breiðabliki árið 2010, en hann gat ekki gert upp á milli titlanna. „Æi, ég veit það ekki en ég veit að þetta er besta tilfinning í heimi,“ sagði Kristinn að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert