Höskuldur tryggði Blikum Evrópusæti

Þorsteinn Már Ragnarsson úr Stjörnunni sækir að Damir Muminovic úr …
Þorsteinn Már Ragnarsson úr Stjörnunni sækir að Damir Muminovic úr Breiðabliki á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik og Stjarnan skildu jöfn 1:1 í viðureign liðanna í 20. Umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvellinum í kvöld.

Stigið gerði það að verkum að Breiðablik er öruggt með Evrópusæti en Blikar geta ekki lent neðar en í þriðja sæti deildarinnar. Vonir Stjörnumanna um að komast í Evrópukeppni á ári dvínuðu til mikilla muna með þessum úrslitum.

Það var óskaplega lítið að frétta fyrstu 25 mínútur leiksins. Mikið var um feilsendingar og stöðubaráttu en Blikar náðu á þessum kafla undirtökunum og áttu nokkrar ágætar tilraunir en Haraldur Björnsson sá við þeim öllum og einu sinni bjargaði stöngin Stjörnumönnum eftir skot Danans Thomasar Mikkelsen.

Á 38. mínútu komust Garðbæingar yfir eftir góða skyndisókn. Sölvi Snær Guðbjargarson átti fallega fyrirgjöf og þar kom bakvörðurinn Jósef Kristinn Jósefsson á fleygiferð og hamraði boltann í netið með kollinum.

Blikarnir sóttu án afláts allan seinni hálfleikinn og lengi vel var aðeins eitt lið inni á vellinum. Breiðablik sótti án afláts og á 72. mínútu jafnaði Höskuldur Gunnlaugsson metin með góðu skoti. Blikar reyndu ákaft að knýja fram sigur en Stjörnumenn héldu fengnum hlut og uppskeran jafntefli.

Breiðablik er með 37 stig í öðru sæti deildarinnar en Stjarnan er með 29 stig í fjórða sætinu.

Breiðablik 1:1 Stjarnan opna loka
90. mín. Guðjón Pétur Lýðsson (Breiðablik) á skot framhjá +1 Slakt skot úr aukaspyrnu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert