Erfitt ár hjá Skúla

KR-ingar fagna sigri í kvöld.
KR-ingar fagna sigri í kvöld. mbl.is/Hari

Skúli Jón Friðgeirsson fagnaði í kvöld sínum öðrum Íslandsmeistaratitli með KR. Hann hefur ákveðið að láta gott heita í knattspyrnunni eftir að hafa fengið alvarlega höfuðáverka fyrr á árinu. 

„Allt og ekkert,“ svaraði Skúli þegar mbl.is spurði hann hvað færi í gegnum hugann á sigurstundu á Hlíðarenda í kvöld. 

„Ég er ógeðslega ánægður. Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir mig persónulega. Ég missti úr helming tímabilsins og hélt á tímabili að ég væri hættur. Um tíma hélt ég líka að ég yrði með höfuðverk það sem eftir yrði ævinnar. Viðsnúningurinn varð svakalegur því ég fékk að koma til baka og ljúka ferlinum sem Íslandsmeistari. Ég er því ofboðslega ánægður í dag.“

KR varð síðast Íslandsmeistari árið 2013 og menn orðnir hungraðir að sögn Skúla. „Já, við vorum það. Nú hefur verið svipaður kjarni í nokkur ár og okkur hefur alltaf fundist að við værum með nógu gott lið til að vinna. Það vantaði herslumuninn en nú hafðist það. Liðið small saman tiltölulega snemma í sumar. Eftir fyrstu fjórar eða fimm umferðirnar þá gekk þetta ótrúlega vel.“

Skúli Jón Friðgeirsson og Kristinn Freyr Sigurðsson
Skúli Jón Friðgeirsson og Kristinn Freyr Sigurðsson mbl.is/Valgarður Gíslason
mbl.is