KR-ingar Íslandsmeistarar

KR varð í kvöld Íslandsmeistari karla í knattspyrnu í tuttugasta og sjöunda skipti.  KR sigraði Val 1:0 þegar liðin mættust á Hlíðarenda í 20. umferð úrvalsdeildar karla, Pepsi Max-deildarinnar.

KR varð því Íslandsmeistari karla bæði í knattspyrnu og körfuknattleik á 120 ára afmæli félagsins. KR sigraði síðast á Íslandsmótinu árið 2013 og var þá einnig undir stjórn Rúnars Kristinssonar. 

KR er með 46 stig í efsta sæti en Breiðablik kemur næst með 37 stig. Valsmenn eru með 25 stig í sjötta sæti, fimm stigum frá 3. sætinu og sex stigum fyrir ofan fallsæti. 

Sigurmarkið í kvöld kom strax í upphafi leiks. Pálmi Rafn Pálmason afgreiddi þá góða fyrirgjöf Pablo Punyed frá hægri í netið strax á 4. mínútu. Pálmi varð Íslandsmeistari með Val árið 2007 en er nú Íslandsmeistari með KR í fyrsta sinn. 

KR-ingar voru ferskari og ákveðnari í leiknum í kvöld. Valsmönnum gekk illa að byggja upp spil gegn KR-liðinu sem er vel skipulagt og hefur verið afar vel smurt í sumar. KR-ingar áttu mun fleiri marktækifæri í leiknum og Kristján Flóki Finnbogason skaut í stöngina á marki Vals í síðari hálfleik. Valur átti raunar ekki nema fjórar skottilraunir og gekk illa að skapa sér færi gegn KR í kvöld eins og svo mörgum öðrum liðum á þessu tímabili. 

Leikmenn KR fögnuðu vel á Hlíðarenda í kvöld með stuðningsmönnum sínum sem fjölmenntu á völlinn og margir þeirra sungu KR-söngva í 90 mínútur. 

Valur 0:1 KR opna loka
90. mín. Kristinn Freyr Sigurðsson (Valur) á skot framhjá Skottilraun af löngu færi
mbl.is