„Lyftu sér á hærra plan“

Rúnar Kristinsson á sigurstundu í kvöld ásamt Björgvini Stefánssyni.
Rúnar Kristinsson á sigurstundu í kvöld ásamt Björgvini Stefánssyni. mbl.is/Hari

„Eftir að dómarinn flautaði leikinn af hef ég verið nokkuð hrærður yfir þessum árangri okkar og því að hafa gert KR að Íslandsmeistaraliði svo skömmu eftir að ég flutti heim,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs KR í knattspyrnu, eftir að liðið tryggði sér sigur á Íslandsmótinu á Hlíðarenda í kvöld. 

„Ásamt Bjarna og Kristjáni erum við búnir að byggja upp frábært lið með okkar aðstoðarmönnum og stjórninni. Strákarnir eru búnir að lyfta sér á hærra plan. Í fyrra var talað um að KR-liðið væri gamalt en það er ári eldra núna. Strákar eins og Pálmi og Óskar hafa lagt miklu meira á sig síðustu tvö árin til að ná þeim árangri sem okkur langaði að ná. Pálmi kom í KR til að verða Íslandsmeistari og mér þykir ofsalega vænt um að hafa hjálpað honum að ná þeim árangri. Sama má segja um Sindra sem kom til okkar fyrir nokkrum árum á mínu síðasta ári áður en ég fór utan. Finnur Orri, Kristinn og Arnór Sveinn komu í KR til að verða meistarar og nú fá þeir alla vega að lyfta einum bikar og vonandi verða þeir fleiri. Kennie Chopart hafði aldrei unnið neitt sem dæmi. Mér finnst ofboðslega gaman að við séum að ná þessum árangri saman. Strax í fyrra lögðust allir á eitt og þá byrjuðum við að vinna í því að verða betri sem lið. Það tekur langan tíma að byggja upp lið.“

Rúnar sagðist ekki hafa verið viss um hversu góð frammistaðan yrði gegn Val í kvöld þar sem liðin voru að koma úr fríi vegna landsleikja. „Ég vissi satt að segja ekkert hvernig við myndum koma til leiks eftir tveggja vikna frí. Það er bara erfitt að fara inn í landsleikjahlé þar sem er tveggja vikna stopp en fara síðan í leik eins og þennan sem er svo mikilvægur. Við höfðum æft vel og lagt línurnar fyrir leikinn en ég bjóst ekki við því að menn gætu hlaupið jafn mikið og þeir gerðu í kvöld. Reyndar er það þannig að þegar er karamella við endann þá hafa menn stundum meiri orku. Við skoruðum mjög snemma og það gaf þeim sjálfstraust.“

KR-liðið hefur varist virkilega vel í sumar og erfitt er að skapa marktækifæri gegn liðinu eins og Valsmenn fengu að finna fyrir í kvöld. 

„Við höfum verið mjög þéttir sem lið. Þegar við verjumst þá er það góður pakki, hvort sem það er framarlega eða aftarlega. Í kvöld fannst mér við spila einn okkar besta leik í sumar varðandi vörn og pressu gegn frábæru Valsliði sem getur spilað vel. Vinnslan á leikmönnum var frábær og þeir vita hvernig þeir eiga að verjast í þeim stöðum sem við þurfum að verjast í. Sama hvort það er þriggja manna, fjögurra manna eða fimm manna vörn. Þeir skilja þær línur sem við erum að leggja. Það gerðist í fyrra og einnig í vetur þegar við unnum öll þessi mót. Við vorum búnir að byggja upp liðsheild. Það skiptir ekki máli hver fer út og hver kemur inn. Menn taka við keflinu og skila sinni vinnu frábærlega,“ sagði Rúnar Kristinsson ennfremur við mbl.is. 

mbl.is