Næstbesti staðurinn til að landa titlinum

Óskar Örn Hauksson sækir að Andra Aldophssyni.
Óskar Örn Hauksson sækir að Andra Aldophssyni. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Við eru tilbúnir að fagna titlinum í kvöld og þó fyrr hefði verið,“ sagði Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, við mbl.is en KR-ingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í 27. sinn þegar þeir mæta ríkjandi Íslandsmeisturum Vals í 20. umferð Pepsi Max-deildarinnar í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda.

KR-ingar eru með sjö stiga forskot á Breiðablik í toppsæti deildarinnar og sigur gegn Val í kvöld tryggir KR titilinn. Jafntefli gæti líka dugað KR-ingum fari svo að Breiðablik nái ekki að vinna Stjörnuna á heimavelli sínum.

„Hlíðarendi er líklega næstbesti staðurinn til landa titlinum og við förum auðvitað inn í þennan leik til að vinna hann eins og við gerum í öllum leikjum. Menn eru ferskir eftir landsleikjahléið og tilbúnir í erfiðan leik. Nú er staðan þannig að fjórða sætið mun ekki gefa Evrópusæti og það eru mörg sterk lið að berjast um þriðja sætið. Við gerum okkur grein fyrir því að leikurinn í kvöld skiptir öllu máli fyrir Valsmenn. Það er að duga eða drepast fyrir þá. Þarna mætast tvö lið sem þurfa sigur og ekkert annað og það verður hart tekist á,“ sagði Óskar Örn, sem reiknar með öflugum stuðningi KR-inga á Hlíðarenda í kvöld.

„Ég á ekki von á öðru en að stuðningsmenn okkar fjölmenni á Hlíðarenda enda mikið í húfi. Það vill enginn missa af þessum leik,“ sagði fyrirliði KR-inga, sem hefur átt frábært tímabil með Vesturbæjarliðinu og kemur örugglega sterklega til greina sem besti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar í ár.

Arnþór Ingi Kristinsson, miðjumaðurinn öflugi í liði KR-inga, er tæpur fyrir leikinn vegna meiðsla en allir aðrir leikmenn KR eru klárir í slaginn. „Ég á síður von á því að Arnþór geti verið með en við erum vel mannaðir eins og komið hefur í ljós í sumar,“ sagði Óskar Örn.

Flautað verður til leiks á Origo-vellinum klukkan 19.15 og verður fylgst með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert