Viljum vera Íslandsmeistarar aðeins lengur

Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við mætum í þennan leik til reyna að vinna hann og við viljum vera Íslandsmeistarar aðeins lengur,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari ríkjandi Íslandsmeistara Vals, við mbl.is en Valsmenn taka á móti KR-ingum í 20. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Möguleikar Vals á að vinna Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð eru löngu úr sögunni en meistararnir eru enn með í baráttunni um þriðja sætið sem gefur farseðil í Evrópukeppnina. KR-ingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í 27. sinn fari svo að þeir vinni Valsmenn í kvöld og jafntefli getur dugað KR-ingum til að verða meistari fari svo að Breiðablik nái ekki að vinna Stjörnuna á Kópavogsvellinum í kvöld.

„Valur og KR eru alltaf stórleikir og við erum meðvitaðir um það að KR-ingar geta orðið Íslandsmeistarar í kvöld. Við þurfum á öllum stigunum að halda til að halda lífi í Evrópubaráttunni. Það er langsótt fyrir okkur að ná því en meðan möguleikinn er fyrir hendi þá berjumst við til þrautar. Við ætlum okkur að reyna vinna KR-ingana í kvöld og selja okkur dýrt,“ sagði Ólafur.

Valur er í 6. sæti deildarinnar með 25 stig og er sex stigum á eftir FH sem situr í þriðja sæti deildarinnar. Sebastian Hedlund tekur út leikbann í liði Vals í kvöld en að öðru leyti eru allir klárir í slaginn að sögn Ólafs.

Samningur Ólafs við Val rennur út eftir tímabilið og hefur verið orðrómur um að hann yfirgefi Hlíðarenda eftir leiktíðina. Ólafur hefur stýrt Valsliðinu frá árinu 2015 og undir hans stjórn hefur félagið orðið tvisvar Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari.

„Ég klára þetta tímabil og svo munum við setjast niður og fara yfir stöðuna varðandi framhaldið,“ sagði Ólafur við mbl.is.

mbl.is