„Engin breyting á högum Rúnars hjá KR“

Kristinn Kjærnested og Rúnar Kristinsson.
Kristinn Kjærnested og Rúnar Kristinsson. mbl.is/Andri Yrkill

„Eftir okkar bestu vissu þá er engin breyting á högum Rúnars hjá KR. Það dylst engum að hann er frábær þjálfari og það er ekkert óeðlilegt að það sé verið að fylgjast með frábærum þjálfara og persónu eins og hann er,“ sagði Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar KR, í samtali við mbl.is.

Á vef Fréttablaðsins í morgun var greint frá áhuga norska úrvalsdeildarliðsins Brann á Rúnari en forráðamenn Brann voru fljótir að bregðast við þeirri frétt og sögðu við norska fjölmiðla að ekkert væri til í henni.

Eftir að hafa þjálfað KR frá 2010-14 sneri Rúnar aftur til félagsins fyrir tveimur árum en í millitíðinni þjálfaði hann norska úrvalsdeildarliðið Lilleström og belgíska liðið Lokeren, félög sem hann lék með á árum áður.

„Það var öllum ljóst að Rúnar myndi rétta úr kútnum hjá félaginu þegar hann kom aftur og það hefur svo sannarlega komið á daginn,“ sagði Kristinn en KR-ingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöld með 1:0 sigri á móti Val á Hlíðarenda. Rúnar hefur þar með gert KR-liðið að Íslandsmeisturum í þrígang og undir hans stjórn hefur KR hampað bikarmeistaratitlinum þrisvar sinnum.

Pálmi, Arnór og Aron að semja

Skúli Jón Friðgeirsson mun yfirgefa KR eftir tímabilið en hann hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Að öðru leyti munu KR-ingar halda öllum sínum mönnum.

„Við erum að reyna að loka samningum við Pálma Rafn, Arnór Svein og Aron Bjarka og ég geri ráð fyrir því að þeir muni skrifa undir nýja samninga áður en tímabilinu lýkur,“ sagði Kristinn.

Það verður mikið stuð í Frostaskjólinu um næstu en helgi en hún verður undirlögð sigurhátíð á 120 ára afmælisári félagsins. KR-ingar mæta FH-ingum í næstsíðustu umferð Pepsi Max-deildarinnar á Meistaravöllum á sunnudaginn og eftir leikinn verða KR-ingar krýndir Íslandsmeistarar 2019.

mbl.is