Tvær þrennur í tíu marka leik í Krikanum

FH-ingar eru komnir með níu fingur á Evrópufarseðilinn eftir sigur sigur gegn löngu föllnum Eyjamönnum í Kaplakrika í kvöld. Tíu mörk litu dagsins ljós í Krikanum en lokatölur urðu 6:4 þar sem Morten Beck Guldsmed og Gary Martin skoruðu sína þrennuna hvor.

FH er í þriðja sæti deildarinnar með 34 stig, er þremur stigum á eftir Breiðabliki en er fimm stigum á undan grönnum sínum í Stjörnunni þegar tveimur umferðum er ólokið.

Eftir tíðindalitlar fyrstu 25 mínúturnar í fyrri hálfleik má segja að flóðgáttir hafi opnast því á síðasta stundarfjórðungnum litu fimm mörk dagsins ljós. Björn Daníel Sverrisson hóf markaveisluna þegar hann skallaði hornspyrnu Jónatans Inga Jónsson í netið. Gary Martin var ekki lengi að kvitta fyrir Eyjamenn þegar hann skoraði með hnitmiðuðu skoti utan vítateigs.

FH-ingar voru fljótir að jafna sig á því og áður en hálfleikurinn var allur höfðu þeir bætt þremur mörkum við. Morten Beck Guldsmed skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Jónatani og Daninn var aftur á ferðinni þegar hann skoraði með skalla eftir góða fyrirgjöf frá Þórði Þorsteini. Morten var ekki hættur því á loka andartökum hálfleiksins fékk hann dæmda vítaspyrnu sem Steven Lennon skoraði úr af öryggi.

Markaveislan hélt áfram í seinni hálfleik. Morten Beck fullkomnaði þrennu sína snemma í seinni hálfleik þegar hann þrumaði boltanum upp í markhornið og Pétur Viðarsson kom FH í 6:1 með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu. Stuðningsmenn FH voru sjálfsagt farnir að halda að FH næði tveggja stafa tölu en Eyjamenn bitu heldur betur frá sér á síðasta stundarfjórðungi leiksins. Gary Martin skoraði tvö mörk og í millitíðinni skoraði varamaðurinn Sigurður Arnar Magnússon.

FH 6:4 ÍBV opna loka
90. mín. FH fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert