Fylk­is­menn tryggðu sætið í Árbæn­um

Fylkismaðurinn Valdimar Þór Ingimundarson og Víkingurinn Ágúst Eðvald Hlynsson eigast …
Fylkismaðurinn Valdimar Þór Ingimundarson og Víkingurinn Ágúst Eðvald Hlynsson eigast við í kvöld. mbl.is/Hari

Fylkismenn eru öruggir með sæti sitt í efstu deild að ári eftir 3:1-sigur gegn Víkingi í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í 20. umferð deildarinnar á Würth-vellinum í Árbænum í kvöld. Hákon Ingi Jónsson, Helgi Valur Daníelsson og Emil Ásmundsson skoruðu mörk Fylkis en Víkingar geta enn þá fallið, tölfræðilega, eftir úrslit kvöldsins.

Víkingar byrjuðu leikinn betur og áttu fyrstu tvær marktilraunir leiksins. Atli Hrafn Andrason átti flot skot strax á 3. mínútu sem fór yfir markið og Óttar Magnús Karlsson náði svo fínu skoti utan teigs sem fór af varnarmanni og aftur fyrir. Á 9. mínútu unnu Fylkismenn boltann á eigin vallarhelmningi og brunuðu upp í sókn. Geoffrey Castillion tók boltann af Andrési Má Jóhannessyni og sendi hann út til vinstri á Daða Ólafsson. Daði átti frábæra fyrigjöf inn í teiginn á Hákon Inga Jónsson sem skallaði boltann í fjærhornið úr miðjum teignum og staðan orðin 1:0. Liðin skiptust á að sækja eftir þetta, Víkingar voru meira með boltann en Fylkismenn voru stórhættulegir í sínum skyndisóknum. Castillion fékk sannkallað dauðafæri á 17. mínútu þegar hann vann boltann af Halldóri Smára Sigurðssyni í vörn Víkinga. Castillion var einn gegn Þórði Ingasyni í marki Víkinga en utanfótarskot hans fór rétt yfir markið.

Tveimur mínútum síðar átti Helgi Valur Daníelsson frábæra sendingu frá hægri en Hákon Ingi hitti ekki boltann í miðjum teignum. Tíu mínútum síðar fengu Víkingar hornspyrnu frá hægri. Boltinn fór á kollinn á Sölvi Geir Ottesen en Stefán Logi Magnússon kom út úr marki Fylkismanna og lokaði vel á fyrirliða Víkinga. Nokkrum mínútum síðar átti Ásgeir Eyþórsson frábæra sendingu frá vinstri en Hákon Ingi setti boltann rétt framhjá fjærstönginni. Fylkismenn réðu lögum og lofum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Birkir Eyþórsson átti hörkuskot rétt framhjá marki Víkinga á 33. mínútu eftir laglegt samspil. Á 44. mínútu átti Castillion svo skot rétt framhjá, rétt fyrir utan teig, eftir að hann hafði farið illa með Sölva Geir í vörn Víkinga og staðan því 1:0 í hálfleik.

Fylkismenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og Castillion slapp einn í gegnum á 47. mínútu en Þórður í marki Víkinga kom úr úr markinu og varði meistaralega frá honum. Tveimur mínútum síðar átti Castillion hörkuskot, rétt utan teigs, sem fór beint á Þórð Ingason. Víkingar voru fljótir að refsa og á 56. mínútu átti Logi Tómasson aukaspyrnu frá hægri. Logi skrúfaði boltann upp í vindinn og Stefán Logi kom út úr markinu og reyndi að kýla frá. Boltinn datt niður í teignum og þar var það Óttar Magnús Karlsson sem kom boltanum yfir línuna eftir mikinn darraðardans í teig Fylkismanna og staðan orðin 1:1.

Logi Tómasson fékk sannkallað dauðafæri til að koma Víkingum yfir á 68. mínútu en skot hans fór rétt fram hjá. Víkingar fengu þetta í bakið því á 86. mínútu kom Helgi Valur Fylkismönnum yfir með skalla af stuttu færi eftir hornspyrnu og staðan orðin 2:1. Emil Ásmundsson innsiglaði svo sigur Fylkismanna með marki í uppbótartíma eftir skyndisókn og Fylkismenn fögnuðu dýrmætum sigri. Fylkismenn fara með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar í 28 stig en Víkingar eru í níunda sætinu með 25 stig.

Fylkir 3:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Uppbótartiminnað minnsta kosti þrjár mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert