FH fylgir Þrótti upp í efstu deild

Eva Núra Abrahamsdóttir í baráttunni í kvöld.
Eva Núra Abrahamsdóttir í baráttunni í kvöld. mbl.is/Hari

FH tryggði sér í kvöld sæti í úrvalsdeild kvenna í fótbolta með 1:0-útisigri á Aftureldingu í lokaumferðinni í Inkasso-deildinni. Margrét Sif Magnúsdóttir skoraði sigurmark FH á 76. mínútu og sá til þess að FH hafnaði í öðru sæti með 39 stig, sex stigum á eftir Þrótti og tveimur stigum á undan Tindastóli. 

Tindastóll hafði betur gegn ÍA, 4:1, og tryggði sér í leiðinni þriðja sætið. Eva María Jónsdóttir kom ÍA yfir á 62. mínútu en María Dögg Jóhannesdóttir jafnaði á 76. mínútu, áður en Murielle Tiernan skoraði tvö mörk á þremur mínútum. Fjórða mark Tindastóls var sjálfsmark. 

Topplið Þróttar kórónaði glæsilegt tímabil með 9:0-sigri á föllnu liði Grindavíkur. Lauren Wade skoraði fimm mörk fyrir Þrótt og þær Margrét Sveinsdóttir og Linda Líf Boama skoruðu tvö mörk hvor. 

Haukar enda í fjórða sæti með 36 stig. Haukakonur höfðu betur gegn botnliði ÍR á heimavelli. Vienna Behnke kom Haukum yfir áður en Sigrún Erla Lárusdóttir jafnaði og var staðan í hálfleik 1:1. 

Tara Björk Gunnarsdóttir kom Haukum aftur yfir á 79. mínútu og fjórum mínútum síðar bætti Heiða Rakel Guðmundsdóttir við þriðja marki Hauka. Linda Eshun klóraði í bakkann fyrir ÍR á lokamínútunni og þar við sat. 

Þá gerðu Augnablik og Fjölnir markalaust jafntefli í Kópavogi og enda bæði lið um miðja deild með 20 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert