Meistari í sjöunda sinn

Margrét Lára Viðarsdóttir og Dóra María Lárusdóttir á sigurstundu í …
Margrét Lára Viðarsdóttir og Dóra María Lárusdóttir á sigurstundu í dag. Samanlagt hafa þær leikið 236 A-landsleiki. mbl.is/Hari

„Ég held að þetta sé sá sjöundi,“ sagði Dóra María Lárusdóttir þegar mbl.is spurði hana hversu oft hún hefði orðið Íslandsmeistari í meistaraflokki. Valur sigraði á Íslandsmótinu í ellefta skipti í dag og Dóra hefur því átt þátt í stórum hluta þeirrar velgengni. 

Dóra var í liði Vals sem sigraði sex sinnum á sjö ára tímabili. 2004 og svo fimm ár í röð frá 2006 til 2010. „En síðan þurfti ég að bíða í níu ár. Loksins hafði ég það og það er ótrúlega sætt. Einnig vegna þess að við fórum taplausar í gegnum deildina. Liðsheildin er auk þess einstaklega sterk og öll umgjörð hérna til fyrirmyndar. Það eru svo margir í kringum liðið og maður finnur meira fyrir því en áður.“

Valur var einnig með sterkan leikmannahóp í fyrra en tímabilið var Valskonum vonbrigði. Mikill munur er á liðinu á milli tímabila en Dóra bendir á að ýmislegt hafi verið frábrugðið á þessu tímabili. 

„Munurinn er að nú vorum við allar saman frá því fyrir jól. Við áttum mjög gott undirbúningstímabil í heild sinni. Í fyrra voru hins vegar margar að koma úr meiðslum og Fanndís kom á miðju sumri. Sjálf var ég að koma til baka og þá voru alls kyns atriði að trufla okkur. En við höfðum rosalega mikla trú á þessu í sumar. Við höfum spilað frábærlega í allt sumar þótt síðustu tveir leikir hafi ekki verið þeir fallegustu. Ég held að reynslan hafi skilað því sem þurfti að gera undir lok tímabilsins,“ sagði Dóra María ennfremur. 

mbl.is