Pirruð markadrottning

Berglind Björg Þorvaldsdóttir var markahæst í deildinni í sumar.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir var markahæst í deildinni í sumar. Haraldur Jónasson/Hari

„Ég er hrikalega pirruð, ef ég á að vera hreinskilin,“ sagði markadrottningin Berglind Björg Þorvaldsdóttir sem skoraði þrennu í 5:1-sigri á Fylki í Árbænum í dag þegar fram fór lokaumferð efstu deildar kvenna í fótbolta, Pepsi-deildinni.

„Mér finnst ömurlegt að vinna síðasta leikinn 5:1 og fara taplausar í gegnum mótið en vinna ekki neitt – það er ógeðslega svekkjandi. Við héldum í vonina að Keflavík ynni Val og höfðum mikla trú á Keflavíkurliðinu en það gekk ekki upp í dag.“

Þrjú mörk Berglindar gera hana jafna Elínu Mettu Jensen og Hlín Eiríksdóttur úr Val með 16 mörk en þar sem þær tvær léku 18 leiki en Berglind Björg 17 ætti gullskórinn að vera hennar. „Ég stefndi ekkert sérstaklega að því að vera markahæst, vildi fyrst og fremst ná Íslandsmeistaratitlinum svo gullskórinn er bara bónus. Nú er bara næsti leikur, sem er í Evrópukeppni, við förum út á mánudaginn og markmiðið er að komast áfram þar.“

Gáfu okkur strax högg

„Ég á eiginlega ekkert orð yfir þetta, að enda tímabilið svona, en við lögðum okkur allar fram í sumar og getum verið sáttar með það,“ sagði Berglind Rós Ágústsdóttir, fyrirliði Fylkiskvenna, eftir tapið gegn Breiðabliki í dag.

„Við unnum Breiðablik síðast hérna í Árbænum svo þær vildu vinna okkur núna og voru grimmar auk þess að vilja líka vinna titilinn. Það skilaði sér, Breiðablik vildi miklu meira vinna þennan leik en við. Byrjuðu strax á fyrstu mínútu og gáfu okkur strax högg með mörkum,“   bætti fyrirliði nýliðanna við og var sátt við uppskeruna. „Ég er ánægð með sumarið, við héldum okkur uppi, sem var okkar helsta markmið, og náðum sjötta sætinu. Við erum ánægðar með það, líka liðsheildina og allt það.“   

Sumarið var stöngin út

„Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja, bæði er gaman að vinna en líka súrt,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, leikmaður Breiðabliks, eftir leikinn. „Við ætluðum bara að gera okkar besta í þessum leik, hafa gaman af að spila, njóta þess og reyna að skora mörk. Oft hefði dugað í deildinni að tapa ekki leik og gera þrjú jafntefli en það gekk greinilega ekki núna, svolítið sérstakt. Við vorum klaufar að nýta ekki færin í leiknum við Val og segja má að sumarið hafi verið stöngin út.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert