Stjarnan tók fimmta sætið

Stjörnukonurnar Diljá Ýr Zomers og Sóley Guðmundsdóttir taka vel á …
Stjörnukonurnar Diljá Ýr Zomers og Sóley Guðmundsdóttir taka vel á Ásdísi Karen Halldórsdóttur í fyrri leik liðanna. mbl.is/Árni Sæberg

Stjörnukonur tryggðu sér fimmta sætið í Pepsi Max-deild kvenna þegar þær sigruðu KR á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld, 3:1.

Bæði Stjarnan og KR sátu þægilega um miðja deild fyrir þennan leik í Garðabænum í dag og fóru pressulausar af stað. Það voru þó gestirnir sem áttu hressilegra start, sundurspiluðu Stjörnukonur æ ofan í æ, en áttu erfitt með að þenja netmöskvana.

Í blábyrjun leiks var Ingibjörg markmaður KR komin vel út úr markinu þegar hún gaf á Shameeku, sóknarmann Stjörnunnar, og gaf henni gott tækifæri á að skora í tómt markið. Shameeku hitti ekki á rammann þegar hún reyndi að lyfta knettinum yfir Ingibjörgu.

Guðmunda Brynja fékk gott færi strax á áttundu mínútu þegar hún fékk opið skot en hitti ekki á rammann.  Á 10. mínútu slapp Betsy Doon inn fyrir vörn Stjörnunnar og komst ein á móti markmanni en Birta varði stórkostlega, illa farið með gott færi.

Sandra Dögg fékk þó eitt besta færi leiksins þegar hún var ein og óvölduð á markteig eftir góða sendingu Lilju Daggar á 12. mínútu. Hún skaut yfir markið af mjög stuttu færi sem er hreinlega erfiðara en að hitta á rammann.

Stjarnan komst yfir gegn gangi leiksins þegar Diljá Ýr tók hörkusprett upp vænginn, tók boltann með sér inn að marki KR, fram hjá Laufeyju í vörninni og skaut þrumufleyg í slána. Shameeka, sem var stórhættuleg allan leikinn, hirti frákastið og lagði boltann í markið, 1:0 fyrir heimamenn.

Það var Gloria Douglas sem jafnaði leikinn fyrir KR á 26. mínútu þegar hún fékk frábæra sendingu frá Betsy Doon og negldi boltanum í netið af löngu færi, 1:1.

Grace Maher átti lúmskt skot úr aukaspyrnu á 37. mínútu sem Birta varði stórkostlega úr vinklinum og stuttu seinna fékk Guðmunda Brynja magnað færi á markteig en náði ekki að hitta á markið.

Framlína Stjörnunnar er hröð og lét KR finna fyrir því undir lok fyrri hálfleiksins. Diljá Ýr þræddi sig fram hjá tveimur varnarmönnum KR og átti hörkuskot rétt yfir markið á 37. Mínútu. Gyða Gunnars fékk frítt skot úr teig eftir gott samspil framherjanna rétt fyrir hálfleik.

KR-ingar hefðu léttilega getað verið tveimur mörkum yfir í hálfleik en nýttu ekki færin sín.

Seinni hálfleikur spilaðist allt öðruvísi en sá fyrri. Stjarnan lá þéttar til baka í lágpressu og hirti boltann ítrekað af varnar- og miðjumönnum KR liðsins. Það var mun minna um  marktækifæri en þau færi sem heimamenn fengu nýttu þeir.

Eftir um klukkutíma leik fékk Stjarnan hornspyrnu en eftir klafs barst boltinn út á væng til Gyðu Gunnars sem stakk sér niður að endalínu og lagði hann út á Birnu sem kláraði glæsilega. Þetta mark kom Stjörnunni yfir 2:1.

Shameeka Fishley gerði svo vel á 71. mínútu þegar hún tók á rás og stakk vörn KR hressilega af og kláraði með föstu skoti fram hjá Ingibjörgu í markinu, 3:1.  

Diljá Ýr hefði getað aukið forystuna þegar hún sólaði sig í gegnum KR pakka stuttu fyrir leikslok en Ingibjörg varði glæsilega frá henni.

KR-ingar virtust andlausir í seinni hálfleik og misstu dampinn allsvakalega, á meðan Stjörnumenn endurstilltu orkustöðvarnar og kláruðu dæmið eins og vel stillt vél.

Stjarnan 3:1 KR opna loka
90. mín. Sonja Lind Sigsteinsdóttir (Stjarnan) kemur inn á
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert