Stór áfangi Hólmfríðar í dag

Hólmfríður Magnúsdóttir var heiðruð af Selfyssingum áður en leikurinn gegn …
Hólmfríður Magnúsdóttir var heiðruð af Selfyssingum áður en leikurinn gegn ÍBV hófst í dag. Einar Karl Þórhallsson formaður meistaraflokksráðs kvenna afhenti henni blóm og viðurkenningu fyrir 300 deildaleiki á ferlinum. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Hólmfríður Magnúsdóttir nær í dag þeim stóra áfanga að spila sinn 300. deildaleik á löngum ferli í knattspyrnunni en hún er í byrjunarliði Selfyssinga sem taka á móti ÍBV á Selfossi. Leikur liðanna hófst klukkan 14.00.

Selfyssingar heiðruðu hana sérstaklega fyrir þetta afrek rétt áður en flautað var til leiks.

Hólmfríður er aðeins önnur íslenska knattspyrnukonan sem nær að spila 300 deildaleiki á ferlinum en leikjametið á Katrín Jónsdóttir sem spilaði 336 leiki.

Af þessum 300 leikjum eru 145 leikir í íslensku úrvalsdeildinni með KR, ÍBV, Val og Selfossi en 155 með erlendum félagsliðum. Þar lék hún lengst með Avaldsnes í Noregi, frá 2012 til 2016, en áður með Kristianstad í Svíþjóð og Philadelphia Charge í Bandaríkjunum.

Hólmfríður hefur skorað 120 mörk í íslensku úrvalsdeildinni og hún skoraði 54 deildamörk í Noregi, fimm í Svíþjóð og fjögur í Bandaríkjunum.

Hólmfríður á að baki 112 landsleiki þar sem hún hefur skorað 37 mörk og hún er fimmta leikjahæsta og næstmarkahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.

Uppfært kl. 14.36: Hólmfríður er búin að skora í 300. leiknum, kom Selfossi í 2:0 á 33. mínútu og skoraði þar sitt 121. mark í efstu deild á Íslandi. Leikurinn er í beinni textalýsingu á mbl.is:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert