Valur Íslandsmeistari í ellefta sinn

Valur er Íslandsmeistari í knattspyrnu kvenna eftir 3:2 sigur gegn Keflavík í lokaumferð Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í dag.

Keflavík var fallið í næstefstu deild fyrir leikinn en sýndi klærnar og skoraði tvívegis eftir að Valur komst í 3:0. Valskonum nægði jafntefli þar sem liðið er með betri markatölu en Breiðablik. Valur fékk 50 stig og Breiðablik 48 stig. 

Hvorki Valur né Breiðablik töpuðu leik í deildinni og lauk því báðum leikjum liðanna með jafntefli. Breiðablik gerði hins vegar eitt jafntefli við Þór/KA og það tryggði Val titilinn þegar uppi var staðið. 

Valur skoraði snemma leiks í dag eða á 11. mínútu þegar Hallbera Guðný Gísladóttir skoraði glæsilegt mark með firnaföstu skoti utan teigs eftir aukaspyrna Dóru Maríu Lárusdóttur var komið frá teignum. Var staðan 1:0 að loknum fyrri hálfleik.

Annað markið kom einnig eftir aukaspyrnu frá Dóru en hún átti þá lúmskt skot í innanverða stöngina. Lillý Rut Hlynsdóttir fylgdi á eftir og kom boltanum yfir línuna á 56. mínútu. Á 61. mínútu skallaði fyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir í netið eftir hornspyrnu Hallberu Guðnýjar Gísladóttur. 

Þarna virtist sem eftirleikurinn yrði auðveldur fyrir Val en svo fór ekki. Sveindís Jane Jónsdóttir ryendist þeim erfið. Hún skoraði nánast frá endalínu á 67. mínútu og ætlaði þá að gefa fyrir markið en boltinn sigldi alla leið í fjærhornið. Tveimur mínútum síðar fékk Sveindís víti þegar Sandra Sigurðardóttir braut á henni. Sophie Groff skoraði úr spyrnunni og minnkaði muninn í 3:2. 

Keflavík hefði hæglega getað jafnað en eins og áður segir hefði Valur þurft að fá á sig tvö mörk til viðbótar til að missa af titlinum og það var ekki í kortunum. 

Framan af leik hefði Valur auk þess getað skorað fleiri mörk en Valskonur hafa væntanlega litlar áhyggjur af því nú þegar Íslandsmótinu er lokið. 

Valur 3:2 Keflavík opna loka
90. mín. Keflvíkingar eru enn að gera sig líklega til að jafna. Klafs í teignum hjá Val en náðu ekki skottilraun á markið.
mbl.is