Aldrei séð dæmt víti á svona lagað

Leifur Andri Leifsson, til vinstri, í leik með HK gegn …
Leifur Andri Leifsson, til vinstri, í leik með HK gegn KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Við féllum alltof aftarlega á völlinn seinni hluta leiksins en ég set stórt spurningarmerki við dómarann í þessu atviki þarna undir lokin þegar þeir fengu vítaspyrnuna,“ sagði Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK við mbl.is eftir jafnteflið, 1:1, gegn Skagamönnum í Kórnum í dag í uppgjöri nýliðanna tveggja í úrvalsdeild karla í fótbolta en liðin eru áfram samhliða um miðja deildina.

„Fimm leikmenn hoppuðu upp í einn bolta, þrír þeirra duttu og svo er bara allt í einu víti. Ég hef aldrei séð víti dæmt á svona lagað. Við breytum engu núna en þetta er fyrst og fremst hrikalega svekkjandi. Við vildum þrjú stig í dag.

Mér fannst við vera með yfirhöndina lengi í þessum leik, sérstaklega í fyrri hálfleiknum, og svo skoruðum við snemma í seinni hálfleik en þá datt aðeins dampurinn úr okkar leik. Þótt Skagamenn hafi ekki skapað sér eitt eða neitt þá fengu þeir eitt gefins víti og það var nóg fyrir þá.

Það hefði verið skemmtilegt að halda þetta út og vera í efri hluta deildarinnar, en ef við vinnum lokaleikinn þá endum við vonandi þar. Það er svekkjandi að tapa þessum tveimur stigum en við erum á pari með okkar markmið fyrir tímabilið og getum enn náð þeim. Við ætluðum að reyna að slást við sex efri liðin í deildinni og höfum verið að gera það í allt sumar. Við viljum samt meira og förum í lokaleikinn til að vinna hann eins og alla aðra leiki," sagði Leifur Andri Leifsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert