Bara símtöl frá konunni og fjölskyldunni

Helgi Sigurðsson
Helgi Sigurðsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Maður vill alltaf vinna fótboltaleiki, það skiptir engu hvort þetta sé minn fyrsti heimaleikur eða sá síðasti,“ sagði Helgi Sigurðsson, þjálfari Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 1:4-tap fyrir Stjörnunni í sínum síðasta heimaleik sem þjálfari Fylkis í dag. 

Fylkir komst yfir snemma í seinni hálfleik en Stjarnan svaraði með þremur mörkum á örfáum mínútum og komst í 3:1. 

„Eftir að við komumst yfir í seinni hálfleik fannst mér mitt lið brotna niður og ekki nýta sér meðbyrinn. Við fengum á okkur þrjú mörk á fimm mínútna kafla og þá var þetta orðið ansi erfitt og við þurftum að fara að opna okkur. Stjarnan gekk á lagið og fékk góða skyndisókn í lokin. Það var vont að sjá liðið brotna niður eftir að skora mark.

Við breyttum engu í hálfleik. Við komum inn í seinni hálfleikinn af sama krafti og skoruðum eftir fimm mínútur. Þá kom smá værukærð í liðið og menn voru ekki klárir næstu mínútur. Maður þarf alltaf að passa sig fyrstu 2-3 mínúturnar eftir að maður skorar. Við gerðum það ekki í dag.“

Helgi hættir með Fylkisliðið í lok tímabils og ætlar hann sér að halda áfram í þjálfun. 

„Ég verð áfram í þjálfun, hvenær sem það svo verður. Við sjáum hvað gerist á næstu dögum,“ sagði Helgi. En er hann búinn að fá einhver símtöl síðan það var tilkynnt að hann myndi hætta með liðið? „Eitthvað frá konunni og fjölskyldunni,“ sagði Helgi og hló. 

Helgi er ánægður með sín þrjú ár hjá Fylki, þar sem hann hefur komið liðinu úr 1. deild og upp í efri hlutann í úrvalsdeildinni. 

„Ég er mjög stoltur af mínum tíma hérna. Ég kom hingað þegar liðið var fallið og ég átti að ná því upp og koma með stöðugleika. Það hefur heldur betur gerst. Auðvitað er maður fúll með tapið í dag en að öðru leyti er ég mjög stoltur af strákunum. 

Það er mikil jákvæðni í klúbbnum og margir á vellinum og mikið af mörkum. Auðvitað er eitt og annað sem má laga en það verður þá verkefni næsta þjálfara að finna út úr því. Sá þjálfari tekur við góðu búi í frábæru starfsumhverfi,“ sagði Helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert