Erfiðar aðstæður en sanngjörn úrslit

Sigurður Egill Lárusson
Sigurður Egill Lárusson Haraldur Jónasson/Hari

„Ég held samt að þetta hafi verið sanngjarnt og þetta voru erfiðar aðstæður til að spila fótbolta en mér fannst bæði lið spila vel miðað við aðstæður,“ sagði Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals eftir 2:2-jafntefli í Grindavík í dag þegar leikin var 21. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-deildinni.

„Grindvíkingar sóttu grimmt á okkur í lokin, urðu að vinna til að eiga möguleika í deildinni svo það er ekkert skrýtið að þeir hafi lagt áherslu á að sækja en aftur á móti fengum við líka tækifæri til að vinna leikinn,“ bætti Ólafur við og skoðar framhaldið hjá Val síðar. „Það er einn leikur eftir og við klárum hann, skoðum þá einhverjar stöður og sjáum hvað gerist eftir mót.“

Ætluðum að spila upp á stoltið

„Mér fannst þetta bara fínn fótboltaleikur í erfiðum aðstæðum,“ sagði Sigurður Egill Lárusson, sem skoraði jöfnunarmark Vals gegn Grindavík. „Við vissum að Grindvíkingar kæmu grimmir og myndu sækja meira og leikurinn var erfiður en gat endað á hvorn veg sem var. Við ætluðum að spila upp á stoltið; sumarið hefur verið slæmt og við ætlum að enda það vel. Eigum HK um næstu helgi og ætlum að vinna þann leik, síðan fara yfir það sem fór úrskeiðis í sumar og það var greinilega svolítið mikið sem fór úrskeiðis. Komum svo tvíefldir næsta sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert