„Erum búnir að svífa aðeins“

Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR. mbl.is/Hari

„Tilfinningin er geggjuð,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR, við mbl.is eftir 3:2-sigur á FH í 21. umferð Pepsi-Max deildarinnar í knattspyrnu. KR-ingar lyftu Íslandsbikarnum að leik loknum.

Rúnar sagði að vikan hefði verið mjög góð en KR-ingar tryggðu sér titilinn með 1:0-sigri gegn Val á mánudagskvöld. „Það að taka á móti bikarnum fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn er náttúrlega æðislegt,“ sagði Rúnar.

„Við erum búnir að svífa aðeins,“ sagði Rúnar. Íslandsmeistararnir hafa æft vel síðustu daga en Rúnar sagði að leikmenn hefðu fagnað vel eftir leikinn gegn Val, eins og lið eiga að gera eftir að hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitil.

„Við settum okkur markmið fyrir þennan leik og lokaleikinn. Við viljum bara vinna og viljum halda taplausum árangri hér á heimavelli áfram. Við ætluðum ekki að sætta okkur við að vera búnir að vinna og lögðum á okkur mikla vinnu,“ sagði Rúnar.

Íslandsbikarinn fór á loft í Vesturbænum.
Íslandsbikarinn fór á loft í Vesturbænum. mbl.is/Hari

„Sýndum okkar yfirburði í dag“

Þjálfarinn tók undir með blaðamanni að það hefði verið örlítið súrara að taka á móti bikarnum eftir tapleik. „Það er gömul klisja og er hundleiðinlegt. Mann langar ekkert að upplifa það,“ sagði Rúnar og bætti við að það væri gaman að sjá glaða leikmenn og stuðningsmenn.

„Við sýndum okkar yfirburði í dag og það er geggjað að klára heimaleikina með sigri.“

KR varð einnig Íslandsmeistari undir stjórn Rúnars árin 2011 og 2013. Hann segir erfitt að gera upp á milli titla. Hann sagði hópinn hjá KR í ár alveg sérstakan og allir leikmenn væru miklir vinir. „Miðað við það held ég að þetta sé það besta sem ég hef haft.“

Rúnar hefur verið orðaður við brottför frá KR en staðfestir að hann verði áfram í Vesturbænum næsta sumar. Aðrir leikmenn en Skúli Jón Friðgeirsson, sem leggur skóna á hilluna eftir tímabilið, verða áfram í KR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert