Hann er einfaldlega geggjaður í fótbolta

Árni Snær Ólafsson gómar boltann í leik með ÍA gegn …
Árni Snær Ólafsson gómar boltann í leik með ÍA gegn FH. mbl.is/Hari

„Ég er þokkalega sáttur við okkar leik en við hefðum mátt gera betur á köflum. Við fengum nóg af færum til að vinna, bæði í fyrri hálfleik og svo þarna á lokakaflanum, en HK-ingar fengu líka góð færi. Þetta var opinn leikur á báða bóga," sagði Árni Snær Ólafsson markvörður og fyrirliði Skagamanna við mbl.is eftir jafnteflið gegn HK, 1:1, í nýliðaslagnum í Kórnum í úrvalsdeild karla í fótbolta í dag.

HK og ÍA hafa verið hnífjöfn í tvö ár, enduðu jöfn á toppi 1. deildar í fyrra og eru jöfn í 7.-8. sæti fyrir lokaumferðina í ár. Árni sagði að það væri alltaf tekist vel á í viðureignum þeirra.

„Það er alltaf einhver smá hiti á milli liðanna. Í fyrra voru bæði lið í toppbaráttu í 1. deildinni og gerðu tvö jafntefli. Svo komu þeir sterkir uppá Skaga í sumar og unnu okkur. Þetta eru kraftmikil, sterk og jöfn lið og leikirnir á milli þeirra klárast bara á litlu atriðunum,“ sagði Árni.

Hann tók undir það að Tryggvi Hrafn Haraldsson hefði breytt leiknum fyrir Skagamenn þegar hann kom inná sem varamaður í seinni hálfleiknum en Tryggvi jafnaði úr vítaspyrnu rétt fyrir leikslok.

„Já, algjörlega. Tryggvi er einfaldlega geggjaður í fótbolta, sérstaklega þegar hann hittir á daginn sinn. Þá stoppar hann enginn. Svo kom Sigurður Hrannar vel inn í sinn fyrsta leik, það kom líka kraftur með honum. Við hefðum mátt skora aðeins fyrr, þá hefðum við kannski unnið þetta.“

Árni kvaðst tiltölulega sáttur við stöðu Skagamanna í deildinni þótt hann hefði vissulega viljað vera ofar miðað við góða byrjun þeirra á tímabilinu.

„Við vorum með ákveðin markmið, stefndum hátt þótt Evrópusæti væri engin krafa. Við stefndum á 30 stig og vorum komnir með helvíti mörg þarna í byrjun. Þá flugum við kannski hærra en við gerðum fyrir tímabilið. Ef maður hefði horft á það fyrir mót að við værum í þessari stöðu þegar ein umferð væri eftir held ég að við hefðum verið sáttir. Eftir þá stöðu sem við vorum í eftir sjö leiki hefðu menn hinsvegar verið svekktir að sjá okkur í þessari stöðu. Eftir á að hyggja er þetta samt fínt, við erum að koma okkur vel fyrir í deildinni í ár og munum taka næsta skref á næsta tímabili.

Það er mjög sterkt fyrir nýliða, eins og okkur og HK, að halda okkur uppi, og það er klárlega stefnan hjá okkur að fara lengra næst,“ sagði Árni Snær Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert