Íslandsmeistararnir skelltu FH

mbl.is/Haraldur Jónasson

Íslandsmeistarar KR sigruðu FH 3:2 í 21. umferð Pepsi-Max deildar karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í dag. KR fagnaði Íslandsmeistaratitlinum með stuðningsmönnum sínum að leik loknum.

KR er í efsta sæti deildarinnar með 49 stig. FH er í þriðja sæti með 34 stig, tveimur stigum á undan Stjörnunni í baráttunni um sæti í Evrópukeppni næsta sumar.

Það var mikið fjör í Vesturbænum í upphafi leiks en FH-ingar skoruðu fyrsta markið eftir 10. mínútna leik. Steven Lennon kom boltanum þá í markið eftir darraðardans í teig KR-inga.

KR-ingar sköruðu með tveimur mörkum á næstu átta mínútum. Fyrst skoraði Tobias Thomsen með skalla eftir sendingu Óskars Arnar Haukssonar og síðan kom Finnur Tómas Pálmason KR yfir með skalla eftir hornspyrnu Pablos Punyeds.

Leikurinn varð töluvert rólegri eftir fjörugar upphafsmínútur og staðan 2:1 fyrir Íslandsmeistarana að loknum fyrri hálfleik.

Steven Lennon jafnaði metin fyrir FH í upphafi seinni hálfleiks þegar hann vippaði boltanum í netið eftir sendingu Jónatans Inga Jónssonar.

KR-ingar voru, líkt og í fyrri hálfleik, fljótir að svara marki Lennons. Íslandsmeistararnir fengu vítaspyrnu þegar Cédric D'ulivo braut á Óskari Erni. Pálmi Rafn Pálmason skoraði af öryggi úr spyrnunni og kom KR í 3:2.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og KR-ingar fögnuðu frábæru sumri með stuðningsmönnum sínum í Vesturbænum.

Pálmi Rafn Pálmason skorar úr vítaspyrnu fyrir KR á Meistaravöllum …
Pálmi Rafn Pálmason skorar úr vítaspyrnu fyrir KR á Meistaravöllum í dag. mbl.is/Hari
KR 3:2 FH opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er að minnsta kosti fjórar mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert