Það er stutt á milli í þessu

Elfar Árni Aðalsteinsson í baráttu við Sölva Geir Ottesen.
Elfar Árni Aðalsteinsson í baráttu við Sölva Geir Ottesen. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Elfar Árni Aðalsteinsson, framherji KA, skoraði sitt 10. mark í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu í Víkinni í dag þegar KA-menn lögðu Víkinga 3:2 í stórskemmtilegum leik í næstsíðustu umferð deildarinnar.

„Það var frábært að koma hingað og ná í þrjú stig og nú erum við komnir upp í fimmta sæti deildarinnar. Það er stutt á milli í þessu og gott að þurfa ekki að hugsa eitthvað lengur um fallbaráttu. Við komumst víst ekki ofar á töfluna en við ætlum að reyna að halda fimmta sætinu,“ sagði Elfar Árni við mbl.is eftir sigurinn í dag.

KA ætlaði sér meira í ár en raun ber vitni?

„Jú auðvitað. Maður er í þessu til að ná árangri. Annars gæti maður bara verið heima. Við vildum alla vega ná í Evrópusæti en því miður náum við því ekki í ár. Meiðslin hafa svolítið verið að stríða okkur í sumar en það er ekki endalaust hægt að nota það sem afsökun. Nú förum við bara í síðasta leikinn á móti Fylki til að vinna og enda mótið á frábærum nótum,“ sagði Elfar Árni, sem átti flottan leik fyrir Akureyrarliðið í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert