Ágúst hættir með Breiðablik

Ágúst Gylfason.
Ágúst Gylfason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ágúst Gylfason lætur af störfum sem þjálfari karlaliðs Breiðabliks eftir tímabilið en frá þessu er greint á vef félagsins í kvöld.

Ágúst hefur stýrt liði Breiðabliks undanfarin tvö ár og í bæði skiptin varð annað sætið hlutskipti Blikanna á Íslandsmótinu og í fyrra tapaði Breiðablik fyrir Stjörnunni í bikarúrslitum þar sem úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni.

Í tilkynningu frá Breiðabliki segir:

„Knattspyrnudeild Breiðabliks hefur nýtt sér uppsagnarákvæði í samningi milli Ágústar Gylfasonar og knattspyrnudeildar Breiðabliks.

Ágúst mun láta af störfum sem þjálfari meistaraflokks karla að loknum leik Breiðabliks og KR þann 28. september nk. þegar núverandi keppnistímabili lýkur.

Knattspyrnudeild Breiðabliks þakkar Ágústi kærlega fyrir hans frábæru störf sem þjálfari síðustu tvö ár og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.“

Heimir Guðjónsson, þjálfari nýkrýndra bikarmeistara HB í Færeyjum, og Óskar Hrafn Þorvaldsson, sem stýrði Gróttu upp í Pepsi Max-deildina, hafa verið orðaðir við þjálfarastöðuna hjá Blikunum en fleiri þjálfarar koma til greina og þar má nefna Ólaf Jóhannesson, þjálfara Vals, og Ejub Purisevic, sem hefur látið af störfum sem þjálfari Víkings Ólafsvíkur.

mbl.is