Albert Brynjar á förum frá Fjölni?

Albert Brynjar Ingason skoraði níu mörk í 1. deildinni í …
Albert Brynjar Ingason skoraði níu mörk í 1. deildinni í sumar. mbl.is/Hari

Albert Brynjar Ingason, framherji Fjölnis í knattspyrnu, liggur nú undir feldi en hann íhugar það að rifta samningi sínum við Grafarvogsliðið samkvæmt heimildum mbl.is.

Albert Brynjar er með ákvæði í samningi sínum sem gerir honum kleift að yfirgefa félagið í október en hann kom til Fjölnis í fyrrahaust frá uppeldisfélagi sínu Fylki.

Albert átti stóran þátt í því að Fjölnir vann sér inn sæti í efstu deild á nýjan leik í sumar en hann skoraði níu mörk í 21 leik fyrir Fjölni í 1. deildinni en liðið endaði í öðru sæti deildarinnar. Albert yfirgaf Fylki þar sem hann vildi meðal annars eyða meiri tíma með fjölskyldu sinni yfir sumartímann og ákvað því að spila í 1. deildinni.

Heimildir mbl.is herma að Albert muni að öllum líkindum rifta samningi sínum við Fjölni þar sem hann hafi ekki áhuga á því að leika í efstu deild næsta sumar. Þá hefur hann lítinn áhuga að spila gegn uppeldisfélagi sínu Fylki í efstu deild. Framherjinn er markahæsti leikmaður í sögu Fylkis í efstu deild með 70 mörk í 219 leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert