Þorsteinn áfram í Kópavoginum

Þorsteinn Halldórsson verður áfram í Kópavoginum næstu þrjú árin.
Þorsteinn Halldórsson verður áfram í Kópavoginum næstu þrjú árin. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við félagið en þetta kemur fram á Blikar.is. Þorsteinn hefur stýrt liði Breiðabliks frá árinu 2014 og hefur hann gert liðið tvíegis að Íslandsmeisturum og tvívegis að bikarmeisturum á þeim tíma.

Liðið hefur aldrei endað neðar en í öðru sæti deildarinnar frá því að hann tók við. Þorsteinn hefur stýrt Breiðabliki í 90 deildarleikjum þar sem liðið hefur 71. sinni fagnað sigri og sjö sinnum hefur liðið beðið ósigur. „Það er ánægja með störf mín í Kópavogi og mér líður vel hérna,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is í dag.

„Ég tel mig hafa unnið gott starf hérna á þeim fimm árum sem ég hef verið hérna. Saman höfum við náð góðum árangri og markmiðið er að halda áfram á þeirri vegferð á næstu árum. Við erum með mjög ungan leikmannahóp sem á framtíðina fyrir sér og það eru bjartir tímar framundan í Kópavoginu,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is í dag.

Breiðablik endaði í öðru sæti deildarinnar í sumar með 48 stig, tveimur stigum minna en Íslandsmeistarar Vals. Liðið vann tvöfalt á síðustu leiktíð, deild og bikar, en tókst ekki að fylgja eftir góðu gengi í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert