Þriðja systirin á leið á Hlíðarenda?

Arna Eiríksdóttir í baráttunni við Karólínu Lea Vilhjálmsdóttur á Kópavogsvelli …
Arna Eiríksdóttir í baráttunni við Karólínu Lea Vilhjálmsdóttur á Kópavogsvelli í sumar. mbl.is//Hari

Arna Eiríksdóttir, varnarmaður HK/Víkings í knattspyrnu, gæti verið á förum frá félaginu en hún vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína með liðinu í sumar. HK/Víkingur féll úr efstu deild í haust en Valur hefur áhuga á þessum 17 ára gamla varnarmanni samkvæmt heimildum mbl.is.

Þar sem HK/Víkingur féll um deild er öðrum félögum frjálst að ræða við hana um samning en systur hennar, þær Hlín Eiríksdóttir og Málfríður Anna Eiríksdóttir, eru nú þegar samningsbundar Hlíðarendaliðinu.

Guðrún Sæmundsdóttir, móðir þeirra, er fyrrverandi leikmaður Vals en hún leik 168 leiki í efstu deild fyrir félagið þar sem hún skoraði 68 mörk. Arna lék 9 leiki með HK/Víkingi í deildinni í sumar þar sem hún skoraði eitt mark en hún meiddist um mitt sumar og missti því af seinni  hluta tímabilsins.

Valskonur tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í ellefta sinn um helgina þegar liðið lagði Keflavík á Hlíðarenda, 3:2, í lokaumferðinni. Hlín Eiríksdóttir var algjör lykilmaður í liði Vals á tímabilinu og skoraði 16 mörk í 18 leikjum fyrir félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert