Stjarnan lánar leikmann til Kýpur

Jasmín Erla Ingadóttir í leik með Stjörnunni í sumar.
Jasmín Erla Ingadóttir í leik með Stjörnunni í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Jasmín Erla Ingadóttir, miðjumaður úr knattspyrnuliði Stjörnunnar, hefur verið lánuð til kýpversku meistaranna Apollon Limassol og verður hjá félaginu til 31. mars á næsta ári. Stjarnan getur þó kallað hana aftur heim hvenær sem er eftir 15. janúar.

Apollon hefur verið sterkasta lið Kýpur um árabil og oft náð góðum úrslitum í Meistaradeild Evrópu. Liðið er með sex stig og markatöluna 18:0 eftir tvær fyrstu umferðir deildarinnar en áætlað er að Jasmín fari beint í leik með liðinu gegn Lefkothea á sunnudaginn kemur. Lokað er fyrir félagaskiptagluggann á Kýpur á morgun, fimmtudag. 

Stjarnan mætti einmitt Apollon í undankeppni Meistaradeildarinnar á Kýpur sumarið 2015 en liðin voru þar saman í riðli og mættust í hreinum úrslitaleik um sæti í 32 liða úrslitunum. Stjarnan hafði þar betur, 2:0, frammi fyrir 2.000 áhorfendum þar sem Poliana skoraði bæði mörk Garðabæjarliðsins.

Þá var Apollon fyrsta félagið á Kýpur sem fékk Íslending í sínar raðir en Keflvíkingurinn Haraldur Freyr Guðmundsson lék með karlaliði félagsins hluta ársins 2009.

Einar Páll Tamimi, formaður meistaraflokksráðs Stjörnunnar, sagði að Stjarnan legði nú aukna áherslu á að nýta alþjóðleg tengsl sín til þess að leikmenn félagsins fengju verkefni við hæfi erlendis utan keppnistímabilsins á Íslandi.

„Að sjálfsögðu eru möguleikar okkar á að koma leikmönnum í svona verkefni háðir stöðu þeirra hér á landi, en nám og störf þeirra geta staðið því í vegi að þeir geti hleypt heimdraganum með þessum hætti, að ekki sé talað um ungan aldur. Hér kom upp sú staða að eitt af þeim fjölmörgu erlendu félögum sem við eigum í sterku sambandi við leitaði til okkar um aðstoð við að útvega sér hágæða miðjumann. Við vorum svo heppin að hafa einmitt slíkan leikmann innan okkar raða,“ sagði Einar Páll.

„Formaður meistaraflokksráðs hafði mjög óvænt samband við mig fyrir nokkrum dögum og sagði mér að Stjarnan gæti boðið mér að fara í láni til Kýpur í vetur. Ég sá að liðið sem um var að ræða hefur verið sterkasta lið Kýpur undanfarin ár og margoft spilað í aðalkeppni Meistaradeildar Evrópu. Ég þurfti því ekki að hugsa mig lengi um og kem vafalaust til baka sem sterkari leikmaður í vor,“ sagði Jasmín Erla um Kýpurferðina en hún fer utan á morgun. 

Jasmín kom til Stjörnunnar frá FH fyrir nýliðið tímabil en hún lék alla 18 leiki Garðabæjarliðsins í úrvalsdeildinni í sumar, alla í byrjunarliði, og skoraði 5 mörk. Hún er 21 árs gömul og lék áður með Fylki.

Einar Páll sagði að á næstu dögum mætti búast við frekari fréttum af leikmönnum félagsins sem myndu njóta góðs af samböndum Stjörnunnar erlendis. 

mbl.is