HK og Víkingur slíta samstarfinu

Leikmenn HK/Víkings fagna marki í leik í úrvalsdeildinni í sumar.
Leikmenn HK/Víkings fagna marki í leik í úrvalsdeildinni í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Íþróttafélögin HK í Kópavogi og Víkingur í Reykjavík hafa ákveðið að slíta samstarfi sínu um rekstur meistaraflokks, 2. flokks og 3. flokks kvenna í knattspyrnu sem hefur staðið samfleytt frá aldamótum.

Lið HK/Víkings féll úr úrvalsdeildinni í haust og félögin hafa samið um að Víkingur muni taka sæti þess í 1. deildinni á næsta tímabili en HK muni senda lið í 2. deild kvenna.

Þessi yfirlýsing var send frá HK/Víkingi fyrir stundu:

Knattspyrnudeildir HK og Víkings hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að slíta samstarfi um rekstur meistaraflokki, 2. flokki og 3. flokki kvenna.  

HK og Víkingur hafa átt í áralöngu og farsælu samstarfi um rekstur kvennaflokka i knattspyrnu, en samstarfið um meistaraflokk nær aftur til ársins 2001. Liðið hefur fjórum sinnum spilað í efstu deild, tvisvar sinnum unnið 1. deildina og þess utan fimm sinnum tekið þátt í úrslitakeppni 1. deildar. 

Það hefur aldrei borðið skugga á samstarfið og móðurfélögin hafa alla tíð staðið þétt á bak við liðið. Þau eru því þung sporin, nú þegar ákveðið hefur verið að þau gangi hvort sína leið. Fyrir því eru nokkrar ástæður, en sú augljósa staðreynd að Fossvogurinn er ekki lengur sameiginlegt svæði liðanna og flutningur HK í Sala- og Kórahverfi og koma Víkings inn á gamla Fram-svæðið vegur þar þungt. 

Nú tekur við uppbyggingarstarf hjá báðum félögum, en þau hafa tekið ákvörðun um að Vikingur haldi sæti HK/Víkings í 1. deild, en HK hefji sína vegferð í 2. deild, en haldi jafnframt sæti liðanna i A-deild 2. flokks. Það er einlæg von aðstandenda HK/Víkings að liðunum megi farnast vel og að þó vænta megi að hart verði tekist á í framtíðarleikjum félaganna þá verði þess ánægjulega tíma sem þau hafa átt saman ávallt minnst af virðingu.  

 

 

 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert