Loks datt inn leikurinn sem við höfum beðið eftir

Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings
Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings Skapti Hallgrímsson

„Við höfum spilað svona í sumar en ekki nýtt færin, svo að svona leikur er það sem við höfum verið að leitast eftir í allt sumar og frábært að það komi í lokaleiknum,“  sagði Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkinga, eftir 5:1 sigur á Skagamönnum á Skipaskaga í dag þegar fram fór síðasta umferð efstu deildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildin.

„Þeir skora flott mark í byrjun leiks en við vorum staðráðnir í að enda sumarið á góðu nótunum og loksins datt inn leikurinn, sem við höfum verið að bíða eftir í allt sumar þar sem við nýtum færin og erum öflugir fyrir framan markið.“

Víkingum var ekki spáð góðu gengi en með sigrinum í dag fór liðið upp í 7. sæti deildarinnar auk þess að verða bikarmeistari.   „Ég held að allir ætli að vera með á næsta ári.  Það er mikill uppgangur í Víking og spennandi tímar framundan.  Einhverjir eru í láni  hjá okkur og einhverjir eiga eftir að skrifa undir en ég trúi ekki öðru en allir í liðinu ætli að halda áfram í ljósi þess hvað það eru spennandi tímar.  Við ætlum okkur líka stærri hluti á næsta ári,“ bætti fyrirliðinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert