Stjarnan missti af Evrópusætinu - Martin markakóngur

Frá leiknum í Garðabænum í dag.
Frá leiknum í Garðabænum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjörnumenn enda í fjórða sæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, keppnistímabilið 2019 og komast ekki í Evrópukeppni þrátt fyrir sigur á ÍBV, 3:2, á Samsung-vellinum í Garðabæ í dag.

Þeir fengu 35 stig í fjórða sætinu, tveimur minna en FH-ingar sem náðu Evrópusætinu með sigri á Grindavík. Eyjamenn voru löngu fallnir og enduðu með 10 stig á botninum.

Gary Martin skoraði bæði mörk Eyjamanna og tryggði sér með því markakóngstitil deildarinnar með 14 mörk. Alex Þór Hauksson, Sölvi Snær Guðbjargarson og Guðjón Baldvinsson gerðu mörk Stjörnunnar.

Eftir tiltölulega rólegan hálftíma þar sem Stjörnumenn voru mun meira með boltann dró til tíðinda á 34. mínútu þegar Alex Þór Hauksson þrumaði boltanum í þverslá ÍBV. Sóknin hélt áfram, Hilmar Árni Halldórsson fékk boltann í vítateignum en skaut í stöng og út.

Á 39. mínútu náði Stjarnan forystunni. Alex Þór Hauksson fékk boltann frá Daníel Laxdal á vítateigslínu, lék á Eyjamenn og skaut með vinstri í varnarmann og inn, 1:0.

Stjörnumenn gerðu sig líklega til að auka forskotið eftir hlé. Halldór Páll Geirsson varði vel frá Þorsteini Má Ragnarssyni og Guðjóni Baldvinssyni á fyrstu tólf mínútunum og inn á milli átti Brynjar Gauti Guðjónsson skalla í þverslána og yfir.

En það voru Eyjamenn sem jöfnuðu á 64. mínútu. Jonathan Franks átti góða fyrirgjöf frá hægri og á fjærstönginni var Gary Martin mættur og skoraði sitt þrettánda mark á tímabilinu, 1:1.

Engu munaði að Jonathan Franks kæmi Eyjamönnum yfir á 73. mínútu þegar hann skaut af stuttu færi og Haraldur Björnsson varði boltann í stöng og út.

Stjörnumenn brunuðu í sókn og Sölvi Snær Guðbjargarson kom þeim í 2:1 með skoti úr markteignum eftir sendingu Jósefs Kristins Jósefssonar frá endamörkunum vinstra megin.

Sigur Garðbæinga virtist í höfn á 84. mínútu þegar Hilmar Árni komst að endamörkum hægra megin og sendi inn í markteiginn þar sem Guðjón Baldvinsson kom á ferðinni og skoraði með föstu skoti, 3:1.

En á 86. mínútu fengu Eyjamenn vítaspyrnu þegar brotið var á Telmo Castanheira og úr henni skoraði Gary Martin af öryggi sitt fjórtánda mark í deildinni, 3:2.

Stjarnan 3:2 ÍBV opna loka
90. mín. Uppbótartími 3 mínútur. Þetta er að fjara út
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert