Tímabilið gott fyrir félagið þrátt fyrir allt

Ian Jeffs hefur lokið störfum hjá ÍBV, í bili allavega.
Ian Jeffs hefur lokið störfum hjá ÍBV, í bili allavega. Ljósmund/Sigfús Gunnar

Ian Jeffs verður ekki áfram við störf sem þjálfari karlaliðs Eyjamanna þó að hann og Andri Ólafsson hafi gert fína hluti með liðið á lokaspretti Íslandsmótsins í knattspyrnu.

Þeir tóku við liðinu í vonlítilli stöðu á miðju tímabili, með fimm stig á botni deildarinnar, og þaðan fór það ekki en náði í fimm stig í viðbót á lokasprettinum, enda þótt lokaleikurinn gegn Stjörnunni hafi tapast, 3:2.

„Nei, ég verð ekki með liðið, ég held að ég sé búinn að staðfesta það þrisvar eða fjórum sinnum,“ sagði Ian brosandi þegar mbl.is bað hann um endanlega staðfestingu á því eftir Stjörnuleikinn. Andri félagi hans er tekinn við kvennaliði ÍBV.

Hvernig horfir þú á þennan tíma sem er að baki sem þjálfari ÍBV á erfiðu sumri?

„Ég er stoltur af því sem við Andri höfum gert fyrir hópinn. Mér finnst hafa verið ágætis þróun í okkar leik. Við höfum gefið ungum leikmönnum tækifæri, eins og í dag voru sex Eyjamenn í byrjunarliðinu og sjöundi og áttundi komu inn á, einn fór út af þannig að við lukum leiknum með sjö Eyjastráka inni á vellinum, sem er geggjað fyrir okkur.

Mér finnst við hafa náð upp stemningu og við Andri erum ánægðir með hvernig hefur gengið. Leikmenn tóku vel á móti okkur, þetta var erfitt og þungt á köflum en við erum bara stoltir,“ sagði Ian sem hefur verið meira og minna í Vestmannaeyjum frá árinu 2003 þegar hann kom þangað sem ungur fótboltamaður frá Crewe á Englandi.

Hvað þarf ÍBV að gera núna til að komast aftur meðal bestu liða landsins?

„Það þarf að gera það sem oft hefur gerst í Vestmannaeyjum á mínum tíma þar sem leikmaður og þjálfari - það þarf að finna rétta jafnvægið með Eyjastráka sem hafa gæði til að spila í efstu deild og byggja á þeim með góðum útlendingum. Ef við náum því jafnvægi á næsta tímabili getum við komist aftur upp um deild sem er held ég markmið félagsins.

En það er ekki nóg að segja þetta, það þarf að hafa eitthvert plan og fylgja því alla leið. Þeir þurfa að skoða hópinn núna, um daginn var flestum útlendingunum sagt upp og þeir verða ekki áfram, nema Gary, Telmo og Glenn sem eru samningsbundnir lengur.

Þetta tímabil hefur þrátt fyrir allt verið gott fyrir félagið, þrátt fyrir að við höfum farið niður um deild. Þú lærir helling af því, þjálfarateymi, leikmenn og félagið læra helling af þessu og ef þú nýtir það á réttan hátt getur það gert okkur sterka fyrir komandi verkefni,“ sagði Ian Jeffs, sem nú einbeitir sér að starfi sínu sem aðstoðarþjálfari kvennalandsliðs Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert