Ísland í milliriðil eftir risasigur

Íslenska kvenna­landsliðið í knatt­spyrnu, skipað leik­mönn­um 19 ára og yngri er komið í milliriðla í undan­keppni EM eftir 7:0-risasigur á Kasakstan á Würth-vell­in­um í Árbænum í dag. 

Ísland hafði betur gegn Grikklandi síðasta miðvikudag og er með sex stig ásamt Spánverjum eftir tvo fyrstu leikina. Spánn og Ísland mætast í hreinum úrslitaleik um efsta sæti riðilsins á Origo-vell­in­um á Hlíðar­enda á þriðjudag. 

Ísland komst yfir strax á fimmtu mínútu með marki Birtu Georgsdóttur og fjórum mínútum síðar bætti Ída Marín Hermannsdóttir við öðru marki Íslands. Staðan í hálfleik var 2:0 en í seinni hálfleik héldu íslenska liðinu engin bönd. 

Eva Rut Ástþórsdóttir skoraði þriðja markið á 54. mínútu og þær Karen María Sigurgeirsdóttir, Sveindís Jane Jónsdóttir og Ída Marín skoruðu allar á níu mínútna kafla skömmu síðar. Katla María Þórðardóttir bætti við sjöunda markinu korteri fyrir leikslok og þar við sat. 

mbl.is