Hörður einnig úr leik gegn Frökkum

Hörður Björgvin Magnússon missir af landsleikjunum.
Hörður Björgvin Magnússon missir af landsleikjunum.

Hörður Björgvin Magnússon hefur neyðst til þess að draga sig út úr íslenska landsliðshópnum sem mætir heimsmeisturum Frakka á föstudaginn og Andorra eftir rúma viku í undankeppni EM í fótbolta.

Hörður meiddist í ökkla í leik með CSKA Moskvu í Evrópudeildinni síðastliðinn fimmtudag og hefur KSÍ nú staðfest að hann missi af landsleikjunum.

Fyrr í dag varð ljóst að Aron Einar Gunnarsson yrði ekki með í leikjunum, einnig vegna ökklameiðsla, en liðband í ökkla hans slitnaði eftir tæklingu í leik með Al Arabi á föstudagskvöld.

Eftir standa 23 leikmenn af þeim 25 sem Erik Hamrén valdi í landsliðshópinn sem kynntur var á föstudag. Tefla má fram 23ja leikmanna hópi í hverjum leik í undankeppni EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert