Efstur á óskalista Árbæinga

Davíð Snorri Jónasson hefur stýrt undir 17 ára landsliði Íslands …
Davíð Snorri Jónasson hefur stýrt undir 17 ára landsliði Íslands frá árinu 2018. mbl.is/Golli

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U17 ára landsliðs drengja í knattspyrnu, er efstur á óskalista Fylkismanna um að taka við liðinu samkvæmt heimildum mbl.is. Davíð Snorri hefur þjálfað U17 ára landsliðið frá því í janúar 2018 en þar áður var hann yfirþjálfari yngri flokka hjá Stjörnunni í Garðabænum.

Davíð Snorri stýrði liði Leiknis ásamt Frey Alexendarssyni á árunum 2012 til 2015 og komu þeir félagar liðinu upp í efstu deild haustið 2014. Liðið féll hins vegar úr deildinni haustið 2015 og þá ákváðu þeir félagar að róa á önnur mið en þeir eru báðir uppaldir hjá félaginu í Breiðholtinu.

Davíð Snorri hefur náð afar góðum árangri með U17 ára landsliðið og kom liðinu meðal annars í lokakeppni EM 2019 sem fram fór á Írlandi. Þar endaði Ísland í þriðja sæti C-riðils með 3 stig en liðið var í riðli með Ungverjalandi, Portúgal og Rússlandi. Ísland tapaði gegn Portúgal og Ungverjum en eini sigurleikur liðsins kom gegn Rússum.

Fylkismenn hafa verið án þjálfara síðan Helgi Sigurðsson hætti með liðið eftir lokaleik tímabilsins gegn KA á Akureyri. Árbæingar horfa til framtíðar og vilja ráða þjálfara sem getur búið til öflugt efstudeildarlið, ásamt því að halda áfram að byggja ofan á gott yngriflokkastarf og þar kemur Davíð Snorri sterkur inn.

mbl.is