Held að dómararnir hafi ekki skilið hvað ég sagði

Jón Þór Hauksson hefur stýrt Íslandi til þriggja sigra í …
Jón Þór Hauksson hefur stýrt Íslandi til þriggja sigra í fyrstu þremur mótsleikjum sínum sem landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert

„Þetta var frábær sigur og frábær frammistaða hjá stelpunum,“ sagði Jón Þór Hauksson við RÚV eftir 6:0-sigur Íslands gegn Lettlandi í undankeppni EM kvenna í fótbolta í kvöld.

„Það var gríðarlega erfitt að spila á þessum velli, hann var þungur og blautur, og stelpurnar eiga gríðarlega mikið hrós skilið fyrir það hvernig þær útfærðu þennan leik og héldu alltaf áfram,“ sagði landsliðsþjálfarinn strax eftir leik.

Jón Þór fylgdist með síðustu mínútum leiksins úr stúkunni eftir að hafa verið vísað þangað af dómara leiksins fyrir einhvers konar kjaftbrúk á móðurmálinu eftir rangan dóm:

„Ég held að dómararnir hafi hreinlega ekki skilið það sem ég var að segja. Ég var mjög ósáttur þarna í lokin þegar Gunný [Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir] er dæmd brotleg þegar hún var að senda boltann fram á við, en auðvitað er óafsakanlegt að láta reka sig út af í stöðunni 5:0 þegar svona lítið er eftir, en það er best að tjá sig sem minnst um það. Mér fannst dómgæslan afar skrýtin í þessum leik en auðvitað þýðir lítið að ræða það og þetta er eitthvað sem við eigum ekki að láta koma fyrir í þessari stöðu,“ sagði Jón Þór við RÚV, hálfskömmustulegur. Hann var hins vegar hæstánægður með sitt lið í dag:

„Ég er frábærlega ánægður með byrjunina okkar í þessum riðli. Við erum með fullt hús stiga og erum að klára mjög gott landsliðsár þannig að ég er bara virkilega stoltur og ánægður með stöðuna á liðinu.“

mbl.is