Fólk hefur rétt á sinni skoðun

Birkir Bjarnason í leik gegn Moldóva á Laugardalsvelli í september.
Birkir Bjarnason í leik gegn Moldóva á Laugardalsvelli í september. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er eitthvað í gangi og ég þarf að taka einhverjar ákvarðanir eftir þessi tvö mikilvægu landsliðsverkefni,“ sagði Birkir Bjarnason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is á æfingu íslenska liðsins í Laugardalnum í dag.

Birkir hefur verið án félags síðan hann rifti samningi sínum við enska úrvalsdeildarliðið Aston Villa þann 8. ágúst síðastliðinn.

„Ég er opinn fyrir öllu þannig lagað en markmiðið er auðvitað að reyna velja það sem hentar mér best. Auðvitað hefði ég viljað vera búinn að vera finna mér nýtt lið á þessum tímapunkti og ég vonaðist til þess að klára mín mál eftir síðustu landsleiki. Það hafa verið viðræður í gangi við önnur félög frá því að ég hætti hjá Villa en rétta tilboðið hefur hins vegar ekki komið ennþá og þannig er það bara.“

Bæði Birkir og Emil Hallfreðsson eru án félags og hefur val þeirra í íslenska landsliðið verið gagnrýnt af sumum.

„Fólk hefur sínar skoðanir og það hefur allan rétt á því. Ég hugsa fyrst og fremst um það að skila mínu og gera mitt besta þegar tækifæri gefst til. Ég búinn að æfa vel hérna heima frá því að síðustu landsleikjatörn lauk. Markmiðið hefur fyrst og fremst verið að halda sér í góðu standi og ég er tilbúinn í næstu verkefni,“ sagði Birkir í samtali við mbl.is.

Birkir Bjarnason hefur verið án félags síðan hann rifti samningi …
Birkir Bjarnason hefur verið án félags síðan hann rifti samningi sínum við Aston Villa í ágúst. Ljósmynd/@AVFCOfficial
mbl.is