Góð tíðindi fyrir Grindvíkinga

Zeba handsalar samninginn við Grindavík.
Zeba handsalar samninginn við Grindavík. Ljósmynd/Grindavík

Króatíski miðvörðurinn Josip Zeba hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Grindvíkinga sem féllu úr Pepsi Max-deildinni á nýafstöðnu tímabili.

Í fréttatilkynningu frá Grindvíkingum kemur fram:

„Josip Zeba skrifaði í dag undir þriggja ára samning við knattspyrnudeild Grindavíkur. Zeba, eins og flestir vilja kalla hann, var hluti af mjög sterkri vörn Grindavíkur á ný afstöðnu tímabili í Pepsi Max-deildinni.

Það er ósennilegt að það sé hægt að finna lið í flestum, ef ekki öllum deildum heims sem fær á sig næstfæstu mörkin í deildinni en falla samt niður um deild en það var jú hlutskipti okkar þetta ár. Það er því ljúft fyrir okkur að tryggja okkur samning við þennan sterka varnarmann næstu þrjú árin.“

Zeba, sem er 29 ára gamall, lék alla 22 leiki Grindvíkinga í Pepsi Max-deildinni í sumar og skoraði í þeim þrjú mörk.

Grindvíkingar eru í þjálfaraleit en Srdjan Tufegdzic, sem tók við liðinu fyrir tímabilið, lét af störfum hjá félaginu á dögunum.

Josip Zeba í leik með Grindavík gegn KR í sumar.
Josip Zeba í leik með Grindavík gegn KR í sumar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert