Tökum leikinn mjög alvarlega

Didier Deschamps í Laugardalnum í dag þar sem hann ræddi …
Didier Deschamps í Laugardalnum í dag þar sem hann ræddi við fjölmiðlamenn. AFP

Didier Deschamps þjálfari heimsmeistara Frakka sat fyrir svörum á fréttamannafundi á Laugardalsvellinum nú síðdegis en Frakkar mæta Íslendingum í undankeppni EM á Laugardalsvelli annað kvöld.

Frakkar léku síðast hér á landi fyrir 21 ári og þá var Deschamps fyrirliði liðsins en nokkrum vikum áður urðu þeir heimsmeistarar á heimavelli. Leiknum lyktaði með 1:1 jafntefli en þau úrslit vöktu heimsathygli.

„Ég man eftir þessum leik en ég hef ekki rætt um hann við mína leikmenn. Það var ekkert vanmat sem olli því að leikurinn endaði með jafntefli. Það var annað. Ég er ekkert að vísa í þennan leik núna þegar ég er að undirbúa mitt lið. Ég ber virðingu fyrir íslenska liðinu. Völlurinn er góður en aðstæður eru sérstakar. Völlurinn er opinn og rúmar fáa áhorfendur og menn eru ekki vanir slíkum aðstæðum. En við tökum þennan leik mjög alvarlega,“ sagði Dechamps.

Frakkar unnu öruggan 4:0 sigur þegar þeir tóku á móti Íslendingum í fyrri leiknum í undankeppninni í mars. Spurður hvort hann búist við öðruvísi leik nú en í mars sagði Deschamps:

„Íslendingar hafa sýnt það að þeir eru sterkir á heimavelli. Þeir eru beinskeyttir, eru hættulegir í föstum leikatriðum þar sem þeir eru með nokkrar útfærslur af löngum innköstum. Þeir eru líkamlega sterkir og eru með gott lið sem hefur í sínum röðum tæknilega góða leikmenn.“

Það vantar sterka leikmenn í franska liðið en markvörðurinn Hugo Lloris, Paul Pogba og Kylian Mbappé eru allir frá vegna meiðsla.

„Vissulega vantar okkur góða leikmenn en við höfum góða breidd og ég hef ekki áhyggjur að því að liðið muni ekki sýna hvað í því býr. Lloris og Pogba eru mikilvægir leikmenn í liði okkar innan sem utan vallar og auðvitað vildi ég hafa alla klára í þennan leik,“ sagði Deschamps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert